Vátryggingastarfsemi

Menn hafa lengi gert ráðstafanir til að tryggja hagsmuni sína og skapa sér fjárhagsöryggi. Um 3000 árum fyrir Krist munu kínverskir kaupmenn sem fluttu vörur sínar á ánni Jangtsekiang, hafa dreift vörum sínum á mörg skip til þess að eiga minna á hættu ef skip færist. Í babylonísku handriti frá því um 2000 árum fyrir Krist kemur fram að Babyloníumenn komu sér gjarnan saman um að dreifa áhættunni þegar farið var með úlfaldalestir í langar ferðir.  Þar var um að ræða gagnkvæma tryggingu á tjóni af völdum ræningja.

Samkvæmt lögbók Hammurabis, sem var konungur í Babylon á 18. öld fyrir Krist , máttu kaupmenn taka mjög háa vexti af lánum.  Lántakanda var óskylt að endurgreiða lánið ef hann var rændur á ferðalagi.  Ákvæðið var á þá leið að hefði óvinur orðið á vegi lántakandans á ferðalaginu og tekið frá honum allt, sem hann hafði með sér, skyldi hann sverja til guðs og þar með vera laus allra mála.  Áhætta lánveitanda var því mikil og segja má að hinir háu vextir hafi að nokkru leyti verið endurgjald fyrir þessa áhættu.  

Reglur um sameiginlegt sjótjón, sem þekktar eru frá því mörgum öldum fyrir Krist, eru gjarnan taldar vera undanfari vátrygginga síðari tíma.

Á miðöldum veittu gildin félagsmönnum sínum gagnkvæman fjárhagsstuðning við slys, sjúkdóma, eldsvoða og annarra tjóna.

Talið er að fyrstu eiginlegu vátryggingarnar, í þeim skilningi sem nú á dögum er lagður í hugtakið, hafi komið fram á Ítalíu á 14. öld.  Fyrstu vátryggingarnar gegn iðgjaldi voru sjóvátryggingar.  Síðar urðu brunatryggingar algengar í Evrópu.  Persónutryggingar komu fram á 18. öld og síðan hafa margvíslegar vátryggingagreinar þróast.

Elstu þekktu norrænu tryggingarnar eru brunabótareglur í sænskum lögum sem getið er um í rituðum heimildum frá 12. öld. 

Í íslensku þjóðveldislögunum (Grágás) eru merkileg ákvæði um tryggingar en þá gegndu hrepparnir mikilsverðu félagslegu hlutverki.  Hrepparnir höfðu m.a. það hlutverk að bæta íbúum sínum fjárhagslegt tjón vegna bruna húsa eða lausafjár.  Þetta breyttist þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd.  Segja má að frá lokum þjóðveldis og fram á 19. öld hafi eignir hér á landi verið algjörlega óvátryggðar.  Fyrsta vátryggingafélagið á Íslandi var bátaábyrgðarfélag, sem var stofnað á Ísafirði upp úr 1850.