SFF

Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) eru heildarsamtök fjármálafyrirtækja á Íslandi. Aðildarfélög SFF eru viðskiptabankar, fjárfestingarbankar, sparisjóðir, tryggingafélög, verðbréfafyrirtæki, eignaleigur og kortafélög. Aðildarfélög SFF við byrjun árs 2016 voru 28.

Meginverkefni SFF eru að tryggja samkeppnishæf starfsskilyrði fyrir fjármálafyrirtæki á Íslandi og vera upplýsingaveita um íslenska fjármálageirann. SFF halda úti ýmsum sérfræðihópum fulltrúa aðildarfélaga, sem hafa það hlutverk að leggja línur hvað varðar afstöðu fjármálageirans til laga og reglna sem samtökin fá send til umsagnar, móta afstöðu til mála í vinnslu hjá ESB og alþjóðastofnunum og taka að eigin frumkvæði upp mál sem geta varðað íslensk fjármálafyrirtæki miklu. SFF taka þátt í alþjóðlegri samvinnu á fjármálamarkaði gegnum aðild sína að Evrópsku bankasamtökunum og Evrópsku tryggingasamtökunum, auk þess að eiga góða samvinnu við systursamtök sín í Evrópu.

Í aðild að SFF felst bein aðild að Samtökum atvinnulífsins (SA).

SFF urðu til í nóvember 2006 við sameiningu Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja (SBV) og Sambands íslenskra tryggingafélaga (SÍT). Áður höfðu SBV orðið til við sameiningu Sambands íslenskra viðskiptabanka (SÍV), Sambands lánastofnana (SL) og Samtaka verðbréfafyrirtækja (SV) í desember 2000. SFF tóku formlega til starfa 2. janúar 2007.