Verðbréfastarfsemi

Í 1. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, kemur fram að með verðbréfaviðskiptum sé átt við

 •      Móttöku og miðlun fyrirmæla frá viðskiptavinum um einn eða fleiri fjármálagerninga.
 •     Framkvæmd fyrirmæla fyrir hönd viðskiptavina.
 •     Viðskipti með fjármálagerninga fyrir eigin reikning.
 •     Eignastýringu.
 •     Fjárfestingarráðgjöf.
 •     Sölutryggingu í tengslum við útgáfu fjármálagerninga og/eða útboð fjármálagerninga.
 •     Umsjón með útboði verðbréfa án sölutryggingar.
 •     Rekstur markaðstorgs fjármálagerninga (MTF).

Einnig er með verðbréfaviðskiptum átt við eftirfarandi viðskipti eða starfsemi ef hún er í nánum tengslum við starfsemi eða viðskipti sem talin eru upp að framan:

 •     Vörslu og umsýslu fjármálagerninga fyrir reikning viðskiptavina, þ.m.t. öryggisvörslu fjár og tengda þjónustu, svo sem reiðufjár- og tryggingastjórnun.
 •     Veitingu lánsheimilda, ábyrgða eða lána til fjárfestis þannig að hann geti átt viðskipti með fjármálagerninga ef fjármálafyrirtæki sem veitir lánsheimildina eða lánið kemur að viðskiptunum.
 •     Ráðgjöf til fyrirtækja um uppbyggingu eigin fjár, stefnumótun og skyld mál og ráðgjöf og þjónustu varðandi samruna fyrirtækja og kaup á þeim.
 •     Gjaldeyrisþjónustu ef umrædd viðskipti eru liður í fjárfestingarþjónustu.
 •     Fjárfestingarrannsóknir og fjármálagreiningar eða annars konar almennar ráðleggingar er tengjast viðskiptum með fjármálagerninga.
 •     Þjónustu í tengslum við sölutryggingu.
 •     Þjónustu sem tengist tilteknum afleiðuviðskiptum.

Verðbréfafyrirtæki eru ekki skilgreind með beinum hætti í íslenskum lögum. Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 eru viðskipti og þjónusta með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti leyfisskyld starfsemi. Í slíkri starfssemi er falin móttaka og miðlun fyrirmæla frá viðskiptavinum, eignastýring, sbr. lög um verðbréfaviðskipti, sölutrygging í tengslum við útgáfu eins eða fleiri fjármálagerninga eða markaðssetning slíkrar útgáfu og umsjón með útboði verðbréfa.