Útgáfa greiðslukorta

Meginhlutverk greiðslukortafyrirtækja er færsluhirðing, samningsgerð og almenn þjónusta við þá söluaðila sem taka kort sem greiðslumiðil. Bankar eru formlegir útgefendur greiðslukorta en greiðslukortafyrirtækin annast útgáfu kortanna og hafa með höndum mikinn hluta kortavinnslu og þjónustu við korthafa fyrir þá.

Greiðslukort

Greiðslukort geta verið kreditkort eða debetkort. Handhafi kreditkorts hefur heimild til að nota það til greiðslu fyrir vörur og þjónustu eða til úttektar reiðufjár úr hraðbönkum, sem skal greiða í einu lagi eftir á fyrir ákveðið tímabil. Handhafi debetkorts notar það til að greiða seljanda fyrir vörur og þjónustu eða til úttektar reiðufjár beint af bankareikningi sínum.

Greiðslukort útgefin hérlendis bera merki alþjóðlegra greiðslukortafélaganna VISA og MasterCard og eru gild til greiðslumiðlunar jafnt innanlands sem utan. Með kreditkortum fylgja almennt ferðatryggingar og ýmis önnur fríðinda- og tryggðarkerfi.

Greiðslukort hafa um árabil verið búin segulrönd sem geyma upplýsingar sem afgreiðslubúnaður eins og posar lesa. Nú hafa verið settir örgjörvar, sem auka til muna öryggi í kortaviðskiptum í öll kreditkort á Íslandi og er þeim ætlað að taka m.a. við hlutverki segulrandarinnar. Stefnt er að því að setja örgjörva einnig í öll debetkort á næstu misserum. Enn mun nokkur tími líða þar til allir seljendur vöru og þjónustu hafa búnað sem getur lesið upplýsingar af örgjörvakortum.

SEPA

SEPA eða Single Euro Payments Area er verkefni á vegum evrópskra banka sem miðar að því að gera greiðslumiðlun með evrur yfir landamæri innan Evrópu skilvirkari og ódýrari. SEPA fór af stað í kjölfar upptöku evrunnar, með það að markmiði að gera evruviðskipti yfir landamæri á evrusvæði sambærileg í verði og innan hvers evrulands.

SEPA verkefnið er drifið áfram af European Payments Council. Það hefur verið í þróun í nokkur ár, en nú árið 2008 eru fyrstu samhæfðu SEPA kerfin, millifærslur og kortaviðskipti, að fara af stað, samhliða einstökum landskerfum. Innan fárra ára er síðan gert ráð fyrir að SEPA-kerfin hafi alfarið tekið við af landskerfum. Þótt SEPA snúist um greiðslur í evrum hafa bankar utan evrusvæðis einnig tekið þátt í verkefninu, til að tryggja örugga greiðslumiðlun með evrur á öllu EES-svæðinu auk Sviss.

Engin séríslensk kort eru gefin út á Íslandi, heldur er um að ræða kort Visa og Mastercard. Ekki hefur því þurft að fara fram sérstök vinna hérlendis við SEPA aðlögun korta, heldur hafa útgefendur kortanna hér á landi einfaldlega tekið upp þá SEPA-staðla sem alþjóðlegu kortafyrirtækin hafa mælt fyrir um á grundvelli SEPA vinnunnar.