Neytendamál

Fjármálafyrirtækin leggja mikið á sig við að treysta samband sitt við viðskiptavini og afla nýrra. Þetta er drifkraftur þess að þau reyna sífellt að bæta þjónustu sína og bjóða viðskiptamönnum sem bestu kjör og tryggir þar af leiðandi virka samkeppni á fjármálamarkaði.

Í ljósi framangreinds ætti það ekki að koma neinum á óvart að neytendamál eru eitt af áhersluatriðum SFF. Fyrir íslenskan almenning skiptir mestu að reglur fjármálamarkaðarins hér á landi séu í takt við það sem þekkist í löndunum í kringum okkur. Með því móti er stuðlað að samkeppnishæfum starfsskilyrðum hérlendra fjármálafyrirtækja og þeim auðveldað að vaxa og dafna á erlendum vettvangi og auka þannig styrk sinn til að geta sinnt heimamarkaðnum enn betur.

Þjónustustig íslenskra banka og sparisjóða er með því hæsta sem þekkist í heiminum. Þannig er hlutfallið landsmenn deilt með fjölda bankaútibúa lægra hér á landi en í öðrum Evrópuríkjum, þ.e. hvert útibú hefur færri viðskiptamenn að meðaltali en útibú banka í öðrum ríkjum. Greiðslumiðlun í íslensku bankakerfi er einnig mjög skilvirk og örugg, sem gefur viðskiptamönnum kost á að millifæra fjármuni milli banka og sparisjóða hvar sem er á landinu á rauntíma.

Hlutverk Fjármálaeftirlitins (FME) er m.a. að stuðla að stöðugum og trúverðugum fjármálamarkaði, þannig að hagsmunir viðskiptamanna fjármálafyrirtækja séu sem best tryggðir. FME ásamt Samkeppniseftirlitinu veita þannig virkt aðhald með fjármálamarkaðnum. Hins vegar er kostnaðarvitund viðskiptavina fjármálafyrirtækja það sem mestu skiptir og í þeim efnum er lykilatriði að gjöld, vextir og skilmálar séu gagnsæ og uppi á borðinu. Allir íslenskir bankar og sparisjóðir hafa um árabil tryggt gagnsæi með því að hafa verðskrá aðgengilega, bæði á heimasíðu og í útibúum sínum.

Hérlendis eru starfandi tvær úrskurðarnefndar til hagsbóta fyrir neytendur fjármálaþjónustu, þ.e. úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki sem SFF, Neytendasamtökin og viðskiptaráðuneyti standa að, og úrskurðarnefnd í vátryggingamálum sem sömu aðilar standa að. Báðar nefndirnar eru vistaðar hjá Fjármálaeftirlitinu. Nánari upplýsingar um nefndirnar eru á eftirfarandi tenglum:

Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum