Íslenska fjármálakerfið

 

Á Íslandi starfa viðskiptabankar og  sparisjóðir sem bjóða fjölbreytta fjármálaþjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki og má þar nefna útlán, innlán, gjaldeyrisviðskipti og greiðsluþjónustu. Á meðal annarra fjármálafyrirtækja starfandi á Íslandi má nefna 8 lánafyrirtæki, 13 verðbréfafyrirtæki og 9 vátryggingafélög (líf- og skaðatryggingafélög) sem bjóða víðtæka fjármálaþjónustu fyrir viðskiptavini sína.

Þar sem Ísland er aðili að EES samningu er regluverk og umgjörð íslenskra fjármálafyrirtækja og eftirlitsaðila byggt á lögum og tilskipunum Evrópusambandsins. EES samningurinn hefur jafnframt þau áhrif að gera íslenskan fjármálamarkað hluta af fjármálamörkuðum Evrópusambandsins.

Af þeim fyrirtækjum sem lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins (FME) má nefna banka, sparisjóði, lánafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir, rekstrarfélög verðbréfasjóða, Kauphöllin, verðbréfamiðstöðvar, innlánsdeildir samvinnufélaga, lífeyrissjóðir, vátryggingafélög og vátryggingamiðlarar.

Þrátt fyrir hrun fjármálakerfisins í október 2008 hélt bankakerfið áfram starfsemi sinni, greiðslukerfið hélt virkni sinni og viðskiptavinir gátu nálgast hefðbundna bankaþjónustu í útibúum. Viðskiptabankarnir hafa nú verið endurfjármagnaðir af ríkisstjórninni og kröfuhöfum með sterkt 16% eiginfjárhlutfall. Frá október 2008 hefur meginfókus fjármálakerfisins verið á endurskipulagningu skulda og bjóða íslensk fjármálafyrirtæki margvíslega þjónustu og lausnir til að minnka skuldabyrði heimila og fyrirtækja.

Húsnæðislán

Húsnæðislán á Íslandi eru aðallega verðtryggð lán til 25-40 ára þar sem höfuðstóll lánsins fylgir breytingum á vísitölu neysluverðs. Íbúðalánasjóður er stærsti fjármögnunaraðilinn á húsnæðislánamarkaðinum en bankar og sparisjóðir bjóða margvíslegar lausnir við fjármögnun íbúðarhúsnæðis, þ.á.m. óverðtryggð húsnæðislán. Stuðst er við greiðslumat, veðmörk og önnur viðmið sem takmarka hámarksupphæð íbúðalána.

Lífeyrissjóðir

Lífeyrissjóðirnir eru meðal stærstu fagfjárfesta á Íslandi með eignir yfir 1.935 milljarða króna eða 126% af VLF í janúar 2011. Þeir eru stórir fjárfestar í hlutabréfum og skuldabréfum á innlendum og erlendum mörkuðum með um 481 milljarða króna í erlendir verðbréfaeign. Lífeyrissjóðirnir eru umsvifamiklir þátttakendur á húsnæðislánamarkaðinum sem stórir kaupendur íbúðabréfa Íbúðalánasjóðs og með eigin lánveitingum gegn veði í fasteign.

Seðlabanki Íslands

Seðlabankinn er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Meginmarkmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi. Með samþykki forsætisráðherra er Seðlabankanum heimilt að lýsa yfir tölulegu markmiði um verðbólgu. Vaxtaákvarðanir Seðlabankans eru í höndum peningastefnunefndar sem er skipuð þrem fulltrúum seðlabankans ásamt tveimur utanaðkomandi sérfræðingum. Að auki skal Seðlabanki Íslands sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd. Þá hefur Seðlabanki Íslands einkarétt til þess að gefa út peningaseðla og láta slá og gefa út mynt eða annan gjaldmiðil sem geti gengið manna á milli í stað peningaseðla eða löglegrar myntar.

Seðlabanki Íslands tekur við innlánum frá innlánsstofnunum og öðrum lánastofnunun. Önnur helstu verkefni Seðlabanka Íslands eru að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfinu, fara með gengismál, annast bankaviðskipti ríkissjóðs, vera banki lánastofnana, annast lántökur ríkisins, varðveita og ávöxta gjaldeyrisforða landsmanna, safna upplýsingum um efnahags- og peningamál og vera ríkisstjórn til ráðuneytis og gefa álit um allt er varðar gjaldeyris- og peningamál.