Fjármálafyrirtæki

Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki eru fjármálafyrirtæki fyrirtæki sem fengið geta starfsleyfi sem viðskiptabanki, sparisjóður, lánafyrirtæki (fjárfestingarbanki), rafeyrisfyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlun og rekstrarfélag verðbréfasjóða.

Fjármálafyrirtæki í víðari merkingu eru hins vegar fyrirtæki þar sem starfsemin með einum eða öðrum hætti er bundin þátttöku á fjármálamarkaði. Auk framangreindra fyrirtækja falla hér m.a. undir vátryggingafélög og lífeyrissjóðir sem eru jafnan stórir þátttakendur á fjármálamörkuðum.

Innan vébanda Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) eru fyrirtæki sem hlotið hafa starfsleyfi fjármálaeftirlitsins skv. lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um vátryggingastarfsemi. Lífeyrissjóðir hafa sjálfstæð heildarsamtök á sínum snærum, Landsamtök lífeyrissjóða.

Fjármálafyrirtæki hafa mörgum ólíkum hlutverkum að gegna á fjármálamarkaði en engu síðra hlutverki í heildarhagkerfi hvers lands. Bankar og sparisjóðir eru tengiliðir milli þeirra sem spara og þeirra sem fjárfesta. Þeir taka á móti innleggjum frá einstaklingum, fyrirtækjum og opinberum aðilum og lána út fjármagn til fjárfesta. Vátryggingafélög taka við iðgjöldum til að bregðast við ófyrirséðum atburðum í framtíðinni. Þau ávaxta iðgjöldin, m.a. með kaupum á verðbréfum og stuðla þannig að frekari uppbyggingu atvinnulífsins. Lífeyrissjóðir starfa í grunninn á svipaðan hátt og vátryggingafélög. Hlutverk lífeyrissjóðanna er að greiða fólki lífeyri þegar starfsævinni lýkur. Lífeyrissjóðirnir taka við iðgjöldum og ávaxta fé sitt með fjárfestingum í atvinnulífinu og með lánum til einstaklinga.