Eignaleigustarfsemi

Eignaleiga er starfsleyfisskyld starfsemi skv. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Fyrirtæki sem stunda eignaleigu verða skv. lögunum að uppfylla starfsleyfiskröfur til viðskiptabanka, sparisjóða eða lánafyrirtækja, m.a. um að stofnfé verði aldrei lægra en 5 milljónir evra. Eignaleigur lúta eftirliti Fjármálaeftirlits. Meginstarfsemi slíkra fyrirrtækja felst í að leigu tækja og fasteigna til viðskiptamanna.

Helstu tegundur eignaleigustarfsemi eru:

  • Í fjármögnunarleigu helst eignarréttur að hinu leigða hjá leigusala. Leigusalinn sem kaupir tækið að beiðni leigutaka, sem fær síðan umráð þess gegn greiðslu leigugreiðslna og hirðir af því arð á leigutímanum. Í lok grunnleigutíma leigusamningsins á leigutakinn kost á að   skila tækinu eða leigja það áfram. Leigutíminn er breytilegur á milli samninga, sem helgast almennt af vilja aðila og líftíma tækis.
  • Í kaupleigunni er leigusalinn eigandi hins leigða á leigutímanum, með sama hætti og í fjármögnunarleigunni. Leigutakanum er skylt að kaupa hið leigða á fyrirfram ákveðnu lokaverði í lok leigutímans. Skattaleg meðferð kaupleigusamninga er með öðrum hætti en fjármögnunarleigusamninga, en kaupleigutaki eignfærir hið leigða og afskrifar verðmæti eins og það væri hans eign samkvæmt skattalögum á leigutímanum.
  • Rekstrarleiga er leigusamningur um umráð, sem byggist á þríhliða samkomulagi á milli leigutaka, eignaleigufyrirtækis og seljanda bifreiðar eða tækis. Eignaleigan kaupir bifreið eða tæki að beiðni leigutaka, sem fær umráð hins keypta með tilteknum skilyrðum gegn greiðslu leigu og skilar svo í lok samningstíma, til söluaðila. Yfirleitt er allt reglubundið viðhald og þjónusta innifalin í leigugreiðslum.
  • Einkaleiga er kaupleigusamningur sem er framkvæmdur með sama hætti og rekstrarleigan. Aðalmunur þessara samninga er að leigutakinn er skattalegur eigandi hins leigða á leigutímanum, en skilar tækinu í lok leigutímans samkvæmt sérstökum samningi á milli hans og seljanda sem kaupir það af leigusala. Einkaleigan hentar best fyrir einstaklinga, sem leggja meira upp úr umráðum bifreiðar en að eiga hana.

Bílasamningur er í eðli sínu kaupleigusamningur og er það form ráðandi í fjármögnun bifreiða til einstaklinga, með eða án þjónustu seljanda.

Einstaklingar geta líka hjá tekið hefðbundin bílalán hjá eignaleigum og eru þá sjálfir skráðir eigendur bifreiðarinnar.