Eftirlit á fjármálamarkaði

Fjármálaeftirlit á Íslandi er í höndum sérstakrar ríkisstofnunar sem nefnist Fjármálaeftirlitið sem starfar m.a. á grundvelli laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998.

Fjármálaeftirlitið skal fylgjast með að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða samþykktir sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Fjármálaeftirlitið heyrir undir viðskiptaráðherra, sem skipar stofnuninni þriggja manna stjórn til fjögurra ára í senn, þar af einn stjórnarmann tilnefndan af Seðlabanka Íslands. Hlutverk stjórnar FME er að móta áherslur í starfi og fylgjast með starfsemi og rekstri Fjármálaeftirlitsins. Meiri háttar ákvarðanir skal bera undir stjórnina til samþykktar eða synjunar.

Kostnaður af rekstri FME er að fullu greiddur af eftirlitsskyldum aðilum, samkvæmt hlutföllum sem mælt er fyrir um í 5. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit af fjármálastarfsemi. FME er skylt fyrir 1. júlí ár hvert að gefa viðskiptaráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað fyrir komandi ár. Í skýrslunni skal fylgja álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi komandi árs. Kostnaður af rekstri FME hefur vaxið hratt síðustu ár.

SFF eiga sæti í samráðsnefnd eftirlitsskylda aðila, sem starfar á grundvelli 2. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999, sbr. reglugerð nr 562/2001. SFF telja mikilvægt að Fjármálaeftirlitið sé öflugt þannig að það geti tekist á við þau auknu verkefni sem fylgja sífellt flóknara regluumhverfi og stækkandi fjármálamarkaði. Jafnframt verður að gera þá kröfu að eðlilegt aðhald sé í reksrti FME.

Fjármálaeftirliti er nauðsynlegt að hafa þær heimildir þarf til að geta rækt sitt eftirlitshlutverk á sem bestan hátt. Almennt byggja slíkar heimildir á reglum frá Evrópusambandinu. SFF hafa lagt áherslu á að ekki sé verið að sérsníða íslenskar reglur í þessum efnum, enda gerir EES-samningurinn ráð fyrir því að stefnt sé að samræmdu regluverki fyrir fjármálastarfsemi í öllum EES-ríkjum.

Eftirlit samkvæmt lögum um opinbert eftirlit tekur til starfsemi eftirtalinna aðila:

 •     viðskiptabanka og sparisjóða,
 •     lánastofnana annarra en viðskiptabanka og sparisjóða,
 •     rafeyrisfyrirtækja
 •     vátryggingafélaga,
 •     félaga og einstaklinga sem stunda vátryggingamiðlun,
 •     fyrirtækja í verðbréfaþjónustu,
 •     verðbréfasjóða og rekstrarfélaga verðbréfasjóða,
 •     kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða,
 •     verðbréfamiðstöðva,
 •     lífeyrissjóða
 •     annarra aðila en greinir í 1. tölul., sem heimild hafa lögum samkvæmt til þess að taka við innlánum.