Bankastarfsemi

Bankar og sparisjóðir hafa mikilvægu hlutverki að gegna á fjármálamarkaði en engu síðra hlutverki í heildarhagkerfi landsins. Bankar og sparisjóðir lána fé, taka við innlánum og annast umsýslu fjármagns og eigna viðskiptavina sinna.

Í lögum um fjármálafyritæki  er mælt fyrir um starfsleyfi sem fyrirtæki sem hyggst stunda bankastarfsemi þarf að hafa. Starfsleyfi er veitt af Fjármálaeftirlitinu.


Viðskiptabankar og sparisjóðir

Viðskiptabankar og sparisjóðir starfa á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki. Um starfsemi sparisjóða gilda ýmsar sérreglur, sem er að finna í VIII kafla laganna. Margvísleg starfsemi er stunduð á vegum viðskiptabanka og sparisjóða. Í starfsleyfi þeirra felst heimild til móttöku innlána og annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi, útlánastarfsemi og starfsemi á sviði fjármögnunarleigu, greiðslumiðlunar, útgáfu og umsýslu greiðslumiðla (t.d. greiðslukorta, rafeyris, ferðatékka og víxla), veitingu ábyrgða og trygginga, viðskipta fyrir eigin reikning eða fyrir viðskiptavini, þátttöku í útboðum verðbréfa og þjónustuviðskipta sem tengjast slíkum útboðum, ráðgjafar til fyrirtækja um uppbyggingu höfuðstóls, áætlanagerð og skyld mál og ráðgjafar og þjónustu varðandi samruna fyrirtækja og kaup á þeim, peningamiðlunar, stjórnunar og ráðgjafar varðandi samval verðbréfa, vörslu og ávöxtunar verðbréfa, og upplýsinga um lánstraust (lánshæfi). Stóru viðskiptabankarnir á Íslandi eru með mjög breitt starfssvið sem inniheldur flest af framangreindu. Sparisjóðir, sérstaklega minni sparisjóðir, takmarka starfsemi sína hins vegar oftast við afmarkaða þætti.


Fjárfestingarbankar

Fjárfestingarbankar eru skilgreindir sem lánafyrirtæki, skv. lögum um fjármálafyrirtæki. Starfsemi lánafyrirtækja getur tekið til allra sömu þátta og viðskiptabanka að því undanskildu að lánafyrirtækjum er óheimilt að taka á móti innlánum.

Seðlabanki Íslands

Meginmarkmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi. Með samþykki forsætisráðherra er Seðlabankanum heimilt að lýsa yfir tölulegu markmiði um verðbólgu. Að auki skal Seðlabanki Íslands sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd. Þá hefur Seðlabanki Íslands einkarétt til þess að gefa út peningaseðla og láta slá og gefa út mynt eða annan gjaldmiðil sem geti gengið manna á milli í stað peningaseðla eða löglegrar myntar. Seðlabanki Íslands tekur við innlánum frá innlánsstofnunum og öðrum lánastofnunun. Önnur helstu verkefni Seðlabanka Íslands eru að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfinu, fara með gengismál, annast bankaviðskipti ríkissjóðs, vera banki lánastofnana, annast lántökur ríkisins, varðveita og ávöxta gjaldeyrisforða landsmanna, safna upplýsingum um efnahags- og peningamál og vera ríkisstjórn til ráðuneytis og gefa álit um allt er varðar gjaldeyris- og peningamál.
Innstæðutryggingar

Með innláns- eða innstæðutryggingum er átt við að sá sem á fé á reikningi í banka eða sparisjóði getur fengið féð að hluta eða í heild greitt úr tryggingasjóði ef bankinn eða sparisjóðurinn getur ekki greitt það. Á Íslandi annast Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta þetta hlutverk. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta er sjálfseignarstofnun sem starfar skv. lögum nr. 98/1999.

Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta á að veita þeim sem eiga fé á innlánsreikningum í bönkum og sparisjóðum, eða eiga verðbréf í vörslu fjármálafyrirtækja, tryggingu upp að ákveðnu marki fyrir því að þeir tapi ekki fé vegna gjaldþrots viðkomandi fjármálafyrirtækis. Fjármálafyrirtæki greiða í sjóðinn eftir ákveðnum reglum.

Tryggingarsjóðnum er skipt í tvær deildir, innstæðudeild og verðbréfadeild og ber hvorug deildin ábyrgð á skuldbindingum hinnar. Viðskiptabankar, sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti og hafa staðfestu hér á landi skulu eiga aðild að sjóðnum. Sama gildir um útibú þessara aðila innan EES og í aðildarríkjum EFTA. Aðildarfyrirtæki bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins umfram lögbundin framlög til hans.

Skv. lögum um sjóðinn skal heildareign innstæðudeildar nema a.m.k. 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum á næstliðnu ári og heildareign verðbréfadeildar nema a.m.k. 100 m.kr. Ef eignir tryggingarsjóðanna duga ekki til að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna skal greiðslu úr sjóðunum skipt þannig milli innstæðueigenda að samanlögð heildarinnstæða hvers innstæðueiganda allt að 1,7 millj. kr. er bætt að fullu en það sem umfram er hlutfallslega eftir því sem eignir sjóðsins hrökkva til. Tryggingarfjárhæðin tekur til heildarinnstæðu innstæðueiganda en ekki sérhvers reiknings sem er í eigu hans. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta lýtur eftirliti Fjármálaeftirlitsins.


Greiðslukerfi

Hér á landi eru tvenns konar greiðslukerfi sem jafnframt eru uppgjörskerfi, þ.e. stórgreiðslukerfi Seðlabankans og jöfnunarkerfi Fjölgreiðslumiðlunar hf. (FGM). Uppgjör vegna verðbréfaviðskipta fer jafnframt fram í gegnum fyrrnefnda kerfið. Þátttakendur í kerfunum eru viðskiptabankar, sparisjóðir og Seðlabankinn. Reiknistofa bankanna (RB) sinnir hugbúnaðarþjónustu fyrir öll kerfin en Seðlabankinn hefur milligöngu um uppgjör í þeim.

Greiðslumiðlunarkerfi íslenska bankakerfisins er mjög þróað og gerir viðskiptamönnum banka og sparisjóða m.a. kleift að millifæra milli reikninga landshluta á milli í rauntíma. Víða erlendis er algengt að svokallað flot sé í greiðslukerfum, þ.e. að nokkrir dagar og allt að vika líði frá því millifærslubeiðni er framkvæmd þar til peningurinn berst móttakanda. Slíkt skapar bönkum færi á að nýta fjármunina sér að kostnaðarlausu yfir þetta tímabil. Reiknað hefur verið út að t.d. í Bretlandi skapi slíkt flot bankakerfinu milljarða tekjur árlega. Ekkert flot er í íslensku greiðslukerfunum.


Þróun bankastarfsemi í heiminum

Bankastarfsemi í heiminum hefur þróast hratt á undanförnum árum og hafa íslenskir bankar og sparisjóðir ekki farið varhluta af þeirri þróun. Bankastarfsemi á sér alllanga sögu á Vesturlöndum en rætur hennar má rekja til ítalskra athafnamanna á 13. og 14. öld.

Bankastarfsemi hefur í dag ýmsar birtingarmyndir en helstu tegundir hennar eru viðskiptabankastarfsemi (commercial banking), fjárfestingarbankastarfsemi (investment banking), sparisjóðir (saving banks), samvinnubankar (co-operative banks) og húsnæðislánabankar (mortgage banks).

Lagaleg umgjörð bankastarfsemi hefur þróast með ólíkum hætti milli landa. Þannig hafa efnahagslegir, pólitískir og menningarlegir þættir mótað starfsumhverfi banka. Alhliða bankastarfsemi (universal banking) hefur rutt sér til rúms á umliðnum árum. Í Bandaríkjunum voru viðskiptabankar og fjárfestingarbankar lengi aðskild fyrirtæki. Í kjölfar verðfalls á hlutabréfum á Wall Street árið 1929 var það mat bandarískra stjórnvalda að samþætting verðbréfaviðskipta og viðskiptabankastarfsemi gæti ógnað hagsmunum innstæðueigenda. Með svokallaðri Glass-Steagall löggjöf frá árinu 1933 var fjárfestingabankastarfsemi aðskilin frá viðskiptabankastarfsemi. Samhliða var sett löggjöf um vernd innstæðueigenda, auk þess sem Seðlabanka Bandaríkjanna voru veittar auknar eftirlitsheimildir. Vegna bandarískra áhrifa í Japan eftir seinna stríð þróaðist japönsk bankalöggjöf með svipuðum hætti. Árið 1999 voru Glass-Steagall lögin afnumin og því heimilt að samþætta viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi þar í landi. Sama hefur verið gert í Japan.

Lagalegur aðskilnaður viðskiptabanka- og fjárfestingarbankasarfsemi hefur almennt ekki verið til staðar í Evrópu. Bretar hafa lengst af haft takmarkaða löggjöf um starfsemi fjármálafyrirtækja, en fyrir vikið hefur þróast þar í landi ein mesta bankamiðstöð heims.