Yfirskattanefnd staðfestir túlkun SFF

17. desember 2012

Sagt er frá því í frétt á vef Viðskiptablaðsins í dag að yfirskattanefnd hafi úrskurðað um hvernig ákvarða eigi fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjum vegna sölu á spariskírteinum ríkissjóðs. Sagt var frá þessum úrskurði í nóvemberútgáfu fréttabréfs SFF. Þar kemur meðal annars fram að skatturinn hafi verið hækkaður ítrekað á árunum 2010-2011; Fyrst úr 10% í 15% og loks í 18%. Þess er skemmst að minnast að Ríkisskattstjóri gaf út ákvarðandi bréf vorið 2011 þar sem mælt var fyrir um að miða ætti afdrátt skatts við gildandi skatthlutfall við greiðslu. Fram að þeim tíma höfðu fjármálafyrirtæki miðað afdrátt skatts við þrepaskiptingu,  þ.e. miðað  við gildandi skattafhlutfall þegar vextir féllu til.
Í málinu (úrskurður nr. 586/2012) var deilt um ákvörðun fjármagnstekjuskatts af vaxtatekjum vegna sölu kæranda á spariskírteinum ríkissjóðs og hlutdeildarskírteinum á árinu 2010. Umræddar vaxtatekjur voru skattlagðar í 18% skattþrepi fjármagnstekjuskatts við álagningu gjaldárið 2011. Með úrskurði yfirskattanefndar var fallist á að skattleggja bæri vaxtatekjur af spariskírteinum ríkissjóðs sem féllu til á tímabilinu 1. janúar 1997 til og með 30. júní 2009 í 10% skattþrepi fjármagnstekjuskatts og að skattleggja bæri vaxtatekjur af spariskírteinunum sem féllu til á tímabilinu 1. júlí til og með 31. desember 2009 í 15% skattþrepi fjármagnstekjuskatts. Kröfu kæranda varðandi skattlagningu vaxtatekna af innlausn hlutdeildarskírteina var hins vegar hafnað þar sem talið var að umræddar tekjur, þ.e. gengishækkun skírteinanna á eignarhaldstíma kæranda, gætu ekki að neinu leyti talist áfallnar fyrr en við innlausn skírteinanna á árinu 2010.
Úrskurður yfirskattanefndar staðfestir að upphafleg túlkun SFF var rétt. Þó var ekki fallist á þrepaskipting ætti við þegar um er að ræða innlausn hlutdeildarskírteina.