Vonbrigði að launaskattur verði ekki afnuminn

02. október 2013

Samkvæmt fjárlögum næsta árs munu skattar og gjöld á aðildarfélög Samtaka fjármálafyrirtækja hækka um 1,7 milljarð króna. Sú tala stendur eftir þegar búið er að draga áformaða lækkun á almennum fjársýsluskatti úr 6,75% í 4,5% af launum frá hækkun á bankaskatti úr 0,041% í 0,145% af skuldum.  Miðað við fjárlögin sem kynnt voru í gær gera áætlanir SFF ráð fyrir að, að óbreyttum öðrum sköttum, muni aðildarfélög greiða um 27 milljarða króna í skatta og gjöld árið 2014. Þetta er fimm milljörðum meira en aðildarfélögin borguðu árið 2007 en þá var stærð bankakerfisins áttföld landsframleiðsla  en í dag er hún tvöföld.

SFF hafa fullan skilning á því að stjórnvöld þurfa að ná jafnvægi milli útgjalda og tekna. Fjármálageirinn hefur lagt sitt að mörkum í þeirri viðleitni á undanförnum árum. Það eru vonbrigði að nú þegar fyrir liggur að stjórnvöld ætla að sækja verulegan tekjuauka í gegnum hækkun bankaskatts skuli ekki vegið á móti með því að afnema fjársýsluskatt. Slíkur launaskattur á eina atvinnugrein sendir röng skilaboð, skekkir samkeppnisstöðu og ýtir undir að aukinn hluti af fjármálaþjónustu færist frá eftirlitsskyldum fjármálafyrirtækjum til aðila sem ekki sæta eftirliti.

Sérstaka athygli vekur að samkvæmt frumvarpinu virðist ætlunin að sleppa einum af stærstu aðilunum á íslenskum lánamarkaði, Íbúðalánasjóði, við greiðslu bankaskattsins. Í ljósi þess að hækka á skatthlutfallið nánast fjórfalt er með ólíkindum að einn aðili í beinni samkeppni við þau fjármálafyrirtæki sem skatturinn lendir á eigi að vera undanþeginn.

Nauðsyn er að stöðugleiki og fyrirsjáanleiki ríki um starfsemi á fjármálamarkaði eins og í atvinnulífinu almennt. Möguleikar hérlendra fjármálafyrirtækja á að sækja sér lánsfé til að fjármagna framtíðarrekstur og stjórnvalda á að selja hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum byggjast ekki síst á þeirri umgjörð sem fjármálastarfsemi á Íslandi er búin. Það ætti að vera sameiginlegt markmið jafnt stjórnvalda sem íslenskra fjármálafyrirtækja að vinna að því að sú umgjörð sé eins samkeppnishæf og kostur er hverju sinni. Fyrirsjáanleiki skiptir þar miklu. Allt þetta er jafnframt mikilvægur þáttur í átt að afnámi gjaldeyrishafta.