Vinnustofa SFF um fjármálalæsi

17. janúar 2013

Frá vinnustofunni

Í gær stóðu SFF fyrir vinnustofu um fjármálafræðslu barna og ungmenna með þátttöku starfsmanna fjármálafyrirtækja og kennara af höfuðborgarsvæðinu sem sinna kennslu í fjármálalæsi.  Þátttakendum var skipt upp í hópa og greind þau fjárhagstengdu vandamál sem viðskiptavinir á ýmsum æviskeiðum standa fyrir í daglegu lífi.

Vinnustofuna sóttu annars vegar starfsmenn úr aðildarfélögum SFF sem þekkja vel til vandamála viðskiptavina fjármálafyrirtækja og hins vegar kennarar úr þeim skólum höfuðborgarsvæðisins sem taka þátt í sérstöku tilraunarverkefni um eflingu fjármálalæsis. Stýrihópur um verkefnið hefur verið starfandi um nokkra hríð en þann 14. janúar síðastliðinn undirrituðu Höskuldur H. Ólafsson, formaður Samtaka fjármálafyrirtækja, og Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, samning um aðgerðir til að efla fjármálafræðslu í grunn- og framhaldsskólum. Samkvæmt samningnum munu SFF fjármagna verkefnið en það snýst um tilraunakennslu í fjármálafræðslu í fjórum grunnskólum og tveimur framhaldsskólum.

Helstu niðurstöður vinnustofunnar voru að stærstu vandamál hjá ungu skólafólki þegar kemur að fjármálum er ójafnvægi milli tekna og útgjalda, skortur á skilningi á skuldsetningu og yfirsýn yfir eigin fjármál. Þátttakendur í vinnustofunni töldu hinsvegar offjárfestingu í húsnæði og neyslu umfram greiðslugetu vera helsta vandamál ungs fólks sem stofnað hefur heimili auk skorts á fyrirhyggju í fjármálum.

Þegar kom að því að svara spurningum um hvað sé hægt að gera til þess að afstýra ofangreindum vandamálum voru þátttakendur sammála um að tryggja ætti í námskrá kennslu í fjármálalæsi á öllum skólastigum og slíka kennslu þyrfti að hefja snemma á skólagöngu ungmenna. Auk þess voru þátttakendur sammála um mikilvægi þess að efla þyrfti kennslu sem styrkir gagnrýna hugsun.

Hér að neðan má sjá meginniðurstöður vinnustofunnar.

Niðurstöður vinnustofunnar í heild sinni má nálgast hér.