Vinnustofa með nemendum í fjármálalæsi

12. apríl 2013

Frá vinnustofunni

Þann 10. apríl stóðu SFF ásamt starfshópi menntamálaráðuneytisins fyrir vinnustofu um fjármálafræðslu barna og ungmenna.Um er að ræða framhald af vinnufundi sem var haldin í janúar með starfsmönnum fjármálafyrirtækja og kennurum frá þeim skólum höfuðborgarsvæðisins sem taka þátt í sérstöku tilraunarverkefni um eflingu fjármálalæsis.

Í þetta sinn var vinnustofan haldin með nemendum í fjármálalæsi úr Fjölbrautarskólanum við Ármúla, Menntaskólanum við Sund og Hagaskóla. Nemendurnir voru meðal annars látnir svara spurningum um álit sitt á fjármálalæsi jafnaldra sinn og voru niðurstöðurnar nokkuð afgerandi: Flestir töldu að almennt þekkingarleysi væri á fjármálum meðal yngri kynslóða og það megi meðal annars rekja til lítillar fræðslu. Grunnskólanemarnir sem tóku þátt í vinnustofunni töldu jafnframt ofneyslu vera helsta rót peningavandamála þeirra jafnaldra en framhaldsskólanemarnir töldu tekju- og atvinnuleysi ásamt of mikilli neyslu á kostnað sparnaðar vera helsta vandann.

Stýrihópur um verkefnið um eflingu fjármálalæsis hefur verið starfandi um nokkra hríð en þann 14. janúar síðastliðinn undirrituðu Höskuldur H. Ólafsson, formaður Samtaka fjármálafyrirtækja, og Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, samning um aðgerðir til að efla fjármálafræðslu í grunn- og framhaldsskólum. Samkvæmt samningnum munu SFF fjármagna verkefnið en það snýst um tilraunakennslu í fjármálafræðslu í fjórum grunnskólum og tveimur framhaldsskólum.


Samantekt með niðurstöðum má finna í tveim skjölum í gagnasafni SFF hér og hér.