Vel heppnuð ráðstefna um IFRS 9

01. júní 2015

Samtök fjármálafyrirtækja stóðu í dag, í samstarfi við Deloitte á Íslandi, fyrir ráðstefnu um innleiðingu IFRS 9 reikningsskilastaðalsins. Ráðstefnan var vel sótt en um 140 manns hlýddu á fyrirlestra sérfræðinga Deilotte um áhrif og álitaefni innleiðingar IFRS 9.

Steinþór Pálsson, formaður SFF, setti ráðstefnuna og fjallað um þá miklu áskorun sem innleiðing reikningsskilastaðalsins fæli í sér. Um er að ræða flóknar og umfangsmiklar breytingar á því hvernig lán verða virðismetin í framtíðinni. Steinþór sagði meðal annars að breytingarnar gætu haft í för með sér aukið flökt og aukningu á varúðarfærslum vegna útlánaáhættu.

IFRS 9 mun taka að fullu gildi í ársbyrjun 2018. Í því ljósi sagði Steinþór mikilvægt að tíminn fram að gildistöku verði nýttur vel enda sé innleiðingin tímafrek og kostnaðarsöm. Hann lagði áherslu á að fjármálafyrirtæki og eftirlitsaðilar hafi sömu sýn og skilning á þessum nýja staðli og eigi gott samstarf um innleiðingu hans. Þá þurfi að huga vel að því að  upplýsingum um áhrif á fjármálafyrirtæki sé með skýrum hætti komið á framfæri við markaðinn og ytri aðila þar sem búast megi við að þetta geti haft margvísleg áhrif, svo sem á verðlagningu til viðskiptavina, fjármögnun fjármálafyrirtækja og orðspor þeirra.