Vegna tilmæla FME og Seðlabankans

30. júní 2010

Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands sendu í morgun frá sér tilmæli um hvernig fjármálafyrirtæki skuli vaxtareikna lán sem innihalda óskuldbindandi gengistryggingarákvæði, sbr. dóma Hæstaréttar frá 16. júní sl. Tilmælunum er ætlað að brúa bilið þangað til dómstólar kveða upp sinn endanlega dóm í þessu efni. Í tilmælunum er kveðið á um að miða skuli við vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum eða ef verðtrygging er valin lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum og beitt er þegar óvissa ríkir um lánakjör sbr. 18. og 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, nema aðilar semji um annað.

Með tilmælunum hafa fyrrgreindar stofnanir skorið úr um mikilvægt atriði sem óvissa ríkti um í kjölfar dóma Hæstaréttar. SFF telja mikilvægt að þessari óvissu hafi verið eytt en árétta að enn ríkir óvissa um hvaða lánssamningar falli undir tilmælin. SFF hvetja stjórnvöld til að tryggja að sem allra fyrst verði skorið endanlega úr um þau óvissuatriði sem uppi eru. Miklu skiptir að dómstólar landsins vinni þau mál hratt og örugglega. Skoða þarf á næstu dögum hvort hægt sé að flýta því dómstólaferli með lagasetningu eða öðrum hætti.

Samtök fjármálafyrirtækja og aðildarfyrirtæki þeirra harma þá erfiðu stöðu sem margir viðskiptavina þeirra eru í vegna erlendra lána og þá réttaróvissu sem um þau ríkir og vona að úr henni verði skorið hið fyrsta í Hæstarétti.