Útskrift úr vottunarnámi

23. maí 2016

Fimmtudaginn 19. maí  útskrifuðust 42 starfsmenn aðildarfélaga Samtaka fjármálafyrirtækja úr námi til vottunar fjármálaráðgjafa og vottunar vátryggingafræðinga.

Þetta er í fimmta sinn sem nemendur eru útskrifaðir sem vottaðir fjármálaráðgjafar. Í þetta sinn voru 29 starfsmenn aðildarfélaga SFF útskrifaðir. Frá því að námið hófst hafa um 179 fjármálaráðgjafar hlotið vottun. Markmið vottunarinnar er að samræma þær kröfur sem eru gerðar til fjármálaráðgjafa og vátryggingafræðinga og enn fremur að  tryggja að þeir búi yfir nauðsynlegri þekkingu og færni í starfi. Verkefnið á sér norska fyrirmynd en slíkt vottunarferli hefur verið að ryðja sér til rúms í nágrannalöndunum á undanförnum árum. Að vottunarnáminu standa Samtök fjármálafyrirtækja, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Háskólinn á Bifröst, viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja.

Góð reynsla af námi til vottunar fjármálaráðgjafa varð til þess að skipulagi Tryggingaskólans,  sem rekin var um árabil, var breytt fyrir tveimur árum,  en þá hófu fyrstu starfsmenn tryggingafélaganna nám til vottunar vátryggingastarfsmanna við Opna háskólann. Nú hafa 51 starfsmaður vátryggingafélaganna hlotið slíka vottun. Í ár útskrifuðust 13 starfsmenn úr náminu. Að náminu til vottunar vátryggingastarfsmanna standa SFF, vátryggingafélögin og Opni háskólinn.