Upptökurnar af SFF-deginum 2015

03. desember 2015

Upptökur af ræðunum sem voru fluttar á SFF-deginum sem haldin var 26. nóvember eru nú aðgengilegar á Youtube-rás Samtaka fjármálafyrirtækja ásamt pallborðsumræðum sem fóru fram í lok ráðstefnunnar.

Steinþór Pálsson setti ráðstefnuna og fór yfir helstu verkefni SFF á undanförnum árum og þau úrlausnarefni sem þau standa frammi fyrir. Hann sagði í ræðu sinni að þrátt fyrir viðvarandi gagnrýni hefði mikið breyst til hins betra hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum og þau hafi gegnt mikilvægu hlutverki við endurreisn hagkerfisins. Steinþór sagði mikil sóknarfæri væru fram undan en hins vegar þyrftu menn að vera meðvitaðir um áhætturnar sem eru til staðar ef ekki sé rétt haldið á spöðunum. Einnig lagði hann áherslu á að fyrirhugaðar breytingar á eignarhaldi ríkisins á bönkunum takist vel. Steinþór gerði tækifæri og ógnanir vegna stafrænu byltingarinnar að umtalsefni. Hann sagði tækifærin felast í að fjármálaþjónusta verði einfaldari, ódýrari og betri en að ógnirnar væru jafnframt til staðar og sþví væri þörf á framsækinni löggjöf hér á landi til verjast netógn og glæpum.

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, fjallaði um áherslur stjórnvalda í tengslum við framþróun stafrænna lausna í ávarpi sínu. Fór hún sérstaklega yfir mál þar sem hið opinbera og atvinnulífið væru að taka höndum saman til að auka hagræði og skilvirkni. Í því samhengi fjallaði hún um rafrænar þinglýsingar, opnun sérstakrar leyfisveitingagáttar, fyrirtækjagátt,  þar sem fyrirtæki eiga geta sinnt helstu erindum sínum við opinbera aðila á einum stað á netinu.

Tveir erlendir sérfræðingar - Henrik Andersson hjá McKinsey og Rob Galaski, hjá Deloitte í Kanada – fóru svo yfir helstu strauma og stefnur þegar kemur að tækninýjungum og stöðu fjármálafyrirtækja. Erindi Henrik  nefnist Go Digital or Die og fjallar um þá mikla samkeppni sem hefðbundin fjármálafyrirtæki standa nú frammi fyrir við veitingu fjármálaþjónustu frá annars konar fyrirtækjum sem tekið hafa tækninýjungar í sína þjónustu. Henrik fjallaði svo um að hvaða leyti hefðbundnar kenningar um hvernig megi bregðast við slíkri samkeppni eigi ekki við fjármálafyrirtæki.Erindi Rob heitir Disruptive Innovation in Financial Services og byggir meðal annars viðamikilli skýrslu sem Deloitte vann fyrir World Economic Forum og má finna hér. Rétt eins og Henrik sagði Rob umbreytingarnar vera miklar og gerast nú hratt. Hann sagði bankar fyndu mest fyrir þeim núna en spáði því að áhrifin yrðu meiri á vátryggingamarkaðinn þegar fram í sækir.

Í lok ráðstefnunnar fóru fram pallborðsumræður sem Bryndis Alexandersdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Meniga, stýrði. Það voru þau Björgvin Ingi Ólafsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Íslandsbanka, Elísabet Halldórsdóttir, forstöðumaður upplýsingatækni hjá Icelandair, Erna Ýr Öldudóttir, vörustjóri hjá Novomatic, Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, og Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, sem tóku þátt í umræðunum.