Upptökur frá SFF-deginum

16. desember 2014

Upptökur af ræðunum sem voru fluttar á SFF-deginum eru nú aðgengilegar á Youtube-rás Samtaka fjármálafyrirtækja ásamt pallborðsumræðum sem fóru fram í lok ráðstefnunnar. Finna má umfjöllun um erindi fulltrúa efnahagssviðs SA, Oliver Wyman og Deutsche Bank hér.

Í pallborðsumræðunum var svo rætt um erindin og hvaða ályktanir megi af þeim draga.  Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, stjórnaði umræðunum. Með honum voru Heiðrún Jónsdóttir, sem situr í fjölmörgum stjórnun fyrirtækja, Hrund Rudólfsdóttir, forstjóri Veritas, Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá, Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP og Tómas Brynjólfsson, skrifstofutjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.


Þeir sem tóku þátt í pallborðsumræðunum voru almennt sammála um að þjónusta fjármálageirans væri almennt sé góð en hins vegar væri kostnaður mikill. Þannig benti Heiðrún á að viðskiptavinir fjármálafyrirtækjanna bæru á endanum þann kostnað. Hrund tók í sama streng en taldi að bankarnir stæðu sig vel miðað við það umhverfi sem þeir starfa í.


Hermann benti á að skattar og eftirlitsgjöld útskýrðu meðal annars kostnað bankakerfisins. Hann sagði að stjórnvöld hafa lýst yfir vilja til að draga til baka tímabundna skatta en hann hefði aftur á móti áhyggjur af þróun eftirlitsgjaldsins og hann óttaðist að FME vildi „læsa inn“ ann kostnað sem fjármálageirinn greiddi nú. Sigurður sagði að nauðsynlegt væri að afnema gjaldeyrishöft til að auka hagkvæmni fjármálageirans og ná niður fjármögnunarkostnaði.


Aðspurður að því hvort að hið opinbera hefði vilja til þess að efla samkeppnisfærni bankakerfisins sagði Tómas svo vera og mikilvægasti þátturinn í því væri að tryggja að hér væri í gildi sambærilegt regluverki og í öðrum Evrópuríkjum. Það þýddi hins vegar ekki að menn tæku ekki tillit til sérstakra þátta á borð við áhættuna í kerfinu og þann lærdóm sem menn hafa dregið af atburðunum 2008.

Hér má finna upptökurnar frá fundinum.