Umsögn um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki

30. janúar 2013

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um að bæði Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn telja að of langt sé gengið í frumvarpi um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Breytingarnar kveða meðal annars á um skyldu fjármálafyrirtækja til að birta á vefsíðu sinni og í reikningum upplýsingar um eignarhald allra þeirra sem eiga 1% eða meira í fyrirtækinu. Fram kemur í umsögnun bæði FME og Seðlabankans að það sé erfitt og jafnvel ómögulegt að uppfylla þetta ákvæði frumvarpsins.
Sömu sjónarmið koma fram í umsögn SFF um frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998  sem send var til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. SFF gera ekki eingöngu athugasemd við ofangreinda upplýsingaskyldu heldur benda samtökin á fjölmörg önnur vandkvæði við frumvarpið, s.s. varðandi hæfi lögmanna til að sitja í stjórnum fjármálafyrirtækja, skilgreiningar á hugtökunum yfirráð, móður- og dótturfélag o.fl.  Þá kalla SFF eftir að ákveðnar breytingar á lögunum sem ekki eru í frumvarpinu verði teknar þar inn. Umsögnin er aðgengileg á heimasíðu SFF, eins og aðrar umsagnir samtakana, og hana má finna hér.