Umræða um rekstrarkostnað á villigötum

12. febrúar 2013

Skýrslan Fjármálaþjónusta á krossgötum sem Samkeppniseftirlitið (SE) gaf út í síðustu vakti töluverða athygli enda eru þar reifaðar áherslur og sjónarmið eftirlitsins þegar kemur að fjármálamörkuðum. SFF fagna þessari skýrslu enda er mikilvægt að stofnun á borð við SE geri reglulega grein fyrir sýn sinni á framgangi þeirra mála sem eftirlitið sinnir.


Athygli fjölmiðla beindist að stærstum hluta að umfjöllun skýrslunnar um rekstrarkostnað banka, enda sérstaklega dregið fram við kynningu hennar að rekstrarkostnaðurinn hafi aukist mikið á undanförnum árum og að Samkeppniseftirlitið telji það gefa „til kynna að samkeppnisaðhaldi í bankaþjónustu sé áfátt“. 


Til að hægt sé að draga víðtækar ályktanir um rekstrarkostnað hverju sinni er nauðsynlegt að greina kostnaðarliði þannig að þeir varpi ljósi á gang mála og að sama skapi þurfa ályktanir að byggja á samanburði sem veitir raunverulega innsýn í stöðuna. Það að bera saman rekstur sjúkrahúsa annars vegar og banka hins vegar veitir til að mynda takmarkað svigrúm til að draga ályktanir um stöðu þeirra síðarnefndu. Að sama skapi er rétt að taka fram að þegar ekki liggur fyrir greining á ástæðum kostnaðaraukningar er hætt við því að menn dragi of víðtækar ályktanir.
Sjötti kafli skýrslunnar fjallar um rekstarkostnað banka, aðallega kostnað við rekstur stóru bankanna þriggja, Arionbanka, Íslandsbanka og Landbankans. Skýrsla Samkeppniseftirlitsins nálgast þetta mál úr ýmsum áttum.  Hér eru þessi sjónarhorn tekin til skoðunar.

Kostnaðaraukningin fimm milljarðar en ekki átján

Í skýrslu SE er sérstaklega fjallað um aukningu rekstarkostnaðar bankanna þriggja frá 2009 og dregið fram að hann hafi aukist um 18 milljarða króna á tímabilinu. Dregnar eru ályktanir út frá þeirri tölu þrátt fyrir að fram komi í skýrslunni að þessi aukning skýrist að hluta af aukinni skattlagningu á kostnað bankanna og yfirtöku þeirra á nokkrum fyrirtækjum. Ekki er gerð tilraun til að leiðrétta fyrir þessum þáttum en getið er að kostnaðartengdir skattar og gjöld hafi aukist um 1,5 milljarða króna. Nefnd eru þrjú fyrirtæki sem sameinast hafa bönkunum þremur, þ.e. SpKef, Byr og Valitor.


Staðreynd málsins er að sameiningarnar hafa verið fleiri. Þannig hefur Íslandsbanki sameinast Kreditkortum auk Byrs. Landsbankinn  hefur sameinast Sp fjármögnun og Avant auk SpKef . Þá hefur Arionbanki sameinast Sparisjóði Ólafsfjarðar, keypt Spron Factoring og yfirtekið innheimtu útlánasafna Spron og Frjálsa fjárfestingabankans auk innlána Spron.  Samtals nemur fjöldi starfsmanna þessara fyrirtækja sem runnið hafa inn í bankana um 600 stöðugildum eða  rösklega 20% af starfsmannafjölda bankanna þriggja í lok árs 2008, þ.e. áður en þessar breytingar hófust. 


Að teknu tilliti til þessara tveggja þátta, þ.e. aukinna skattgreiðslna og samruna er raunhæfara að tala um að kostnaðaraukning bankanna þriggja á árunum 2009 – 2011 nemi um 5 milljörðum króna í stað 18 milljarða.
Þá hefur gríðarleg vinna undanfarin þrjú falist í fjárhaglegri endurskipulagningu lána til viðskiptavina. Gróflega má segja að bankarnir þrír hafi þurft að endurvinna frá grunni meira en helming allra útlána á tveimur árum.

Alþjóðlegur samanburður á rekstrarkostnaði

Í skýrslu SE er dregið fram að rekstarkostnaður bankanna sem hlutfall af eignum þeirra á árinu 2011 þriggja hafi verið 2,3%. Vísað er til alþjóðlegs samanburðar sem fram kemur í skýrslu Bankasýslu ríkisins fyrir árið 2012. Þar kemur fram  að rekstarkostnaður 15 lítilla norrænna banka og stórra evrópskra banka hafi verið á bilinu 0,6 – 1,5%. 


Sé skoðað hvaða banka um ræðir sést að hér er ekki á ferðinni samanburður á lánastofnunum sem eru svipaðar að stærð og íslensku bankarnir. Minnstu bankarnir í samanburði Bankasýslunnar eru með svipuð útlán og íslensku bankarnir þrír hafa til samans. Þarna er um að ræða þrjá norska sparisjóði sem allir eru aðilar að sparisjóðasamstarfi í Noregi - Sparebank 1 - og Jyske Bank.   Sparebank 1 annast m.a. lántökur á skuldabréfamörkuðum og fjármögnun á íbúðalánum fyrir sparisjóði samstarfsins, auk þess að sinna fyrir þá vöruþróun, markaðsmálum, verkferlum og sérfræðiráðgjöf og sjá þeim fyrir upplýsingakerfum. Ekki er þannig víst að rekstrarkostnaður einstakra sparissjóða í samstarfinu gefi rétta mynd þar sem hluti af kostnaði í rekstri kemur fram hjá Sparebank 1 en ekki hjá einstökum sparisjóðum og kann sá hluti að vera fjármagnaður af vaxtamun eða þóknunum sem ekki flokkast undir rekstrarkostnað í reikningum einstakra sparisjóða. Sparebank 1  er önnur stærsta bankasamstæða Noregs með heildareignir að fjárhæð 14 þúsund milljarða íslenskra króna. Þeir þrír sparisjóðir sem valdir eru til samanburðar voru með heildareignir á bilinu 1600 - 3000 milljarða króna. Til samanburðar eru samanlagðar heildareignir íslensku bankana um 3000 milljarðar króna. 


Það sem skilur alla þessa banka og sparisjóði frá íslensku bönkunum þremur er annars vegar stærðin og hins vegar að allir hafa þeir aðgang að lánsfjármagni til að fjármagna sig auk innlána. Íslensku bankarnir hafa ekki haft slíkan aðgang eftir hrun ef frá er talið lán þrotabús Landsbankans, NBI, til nýja bankans.  Notkun lánsfjármagns auk innlána hefur afgerandi áhrif á þetta hlutfall þar sem rekstrarkostnaður við lántökur er tiltölulega lítill en lánsféð hefur hins vegar bein áhrif til stækkunar á efnahagsreikning fjármálafyrirtækisins.  Notkun lánsfjár til fjármögnunar hefur einnig afgerandi áhrif á vaxtamun lánafyrirtækja til lækkunar. 


Alþjóðlegar rannsóknir á sambandi stærðar og hagkvæmni benda til þess að veruleg stærðarhagkvæmni sé til staðar. Hins vegar virðist draga úr henni þegar bankar verða mjög stórir á alþjóðlega mælikvarða.  Það úrtak sem Bankasýslan er með rennir stoðum undir þessar rannsóknir. Kostaðarhlutfall minnstu bankanna er á bilinu 1,4% - 1,7%, miðlungsstórra banka á bilinu 0,6% - 0,8% en stærstu bankarnir í úrtakinu svo sem RBS og BNP eru með kostnaðarhlutfall um 1,3%.


Eins og áður segir eru íslensku bankarnir hver um sig um þriðjungur af minnstu bönkunum í þessum samanburði, þ.e. norsku sparisjóðunum.   Þá gerir samstarf um ýmsan rekstur samanburð torveldan eins og að framan er rakið. Af öðrum bönkum í þessum samanburði er Jyske Bank minnstur með efnahag sem samsvarar til 6000 milljarða íslenskra króna eða tvisvar sinnum stærri en íslenska bankakerfið í heild sinni. Kostnaðarhlutfall Jyske Bank er 1,7%. Innlán eru um 43% af efnahag Jyske Bank en 53% af efnahag íslensku bankanna.

Erfitt er að draga einhlítar niðurstöður af þessum samanburði.  Ljóst er þó að samanburður við miðlungstóra banka á Norðurlöndum elur á óraunhæfum væntingum um hver væri eðlilegur rekstrarkostnaður innlendra banka. Bankakerfi hér verður væntanlega ávallt með hærra kostnaðarhlutfall en bankakerfi í nágrannalöndum vegna smæðarinnar og mikilla krafna um dreifða þjónustu.  Raunhæfari samanburður eða krafa gæti hugsanlega verið að stefna að rekstrarkostnaði sem væri  á bilinu 1,5% – 2% af heildareignum.


Þessi samanburður dregur jafnframt fram hversu mikilvægt er að innlendir bankar öðlist á ný aðgang að erlendum skuldabréfamörkuðum til að ná niður rekstrarkostnaði til hagsbóta fyrir íslenskt atvinnulíf.  Núverandi lagaákvæði um afdráttarskatt koma eins og sakir standa í veg fyrir að íslenskum bönkum sé fært að sækja slíka fjármögnun.  Mikilvægt er að ráða á því bót sem fyrst.

Hreinar vaxtatekjur sem hlutfall heildareignum

Í skýrslu SE er fjallað stuttlega um hreinar vaxtatekjur sem hlutfall af heildareignum og þess getið að það hlutfall hafi verið 3% hér á landi 2011 en í 17 af 27 Evrópuríkjum hafi þetta hlutfall verið undir 2%. Að hluta til skýrist hár vaxtamunur hér á landi af endurmati á lánasöfnum, einkum fyrirtækja, sem keypt voru af gömlu bönkunum og aðferðum við bókfærslu þeirra.  Þá skiptir hér einnig máli að bankarnir eru að stærstum hluta fjármagnaðir með innlánum eins og áður er getið og bankar hér á landi hafa ekki enn aðgang að erlendum mörkuðum til skuldabréfafjármögnunar.  Varhugavert er því að draga miklar ályktanir af þessum hlutföllum. Óhagstæð þróun þeirra undanfarin ár er að líkindum fyrst og fremst fyrir áhrif banka- og efnahagskreppunnar og gjaldeyrishaftanna og kann að snúast á betri veg þegar frá líður.


Þrátt fyrir að samanburður á starfsemi banka frá einu landi til annars kunni að vera vandasamur og aðstæður hér á landi mótist enn af sértækum þáttum á borð við gjaldeyrishöft og vandamál sem eru tengd hinum djúpstæðu efnahagssamdrætti sem reið yfir landið haustið 2008 veitir það mönnum ekkert skjól frá því að takast á við áskoranir við rekstur fjármálafyrirtækja hér á landi. Enda er það yfirlýst markmið þeirra þriggja banka sem umfjöllunin um rekstrarkostnað nær til að ná honum niður. Á sama tíma skiptir miklu að vandað sé til allrar tölfræði sem sett er fram um fjármálamarkaðinn þannig að umræður um stöðu hans og framtíð grundvallist á réttum forsendum.