Umhverfismál og áskoranir fjármálafyrirtækja

01. október 2015

Fjármálageirinn gegnir lykilhlutverki þegar kemur að viðbrögðum við aðsteðjandi umhverfisvandamálum. Íslensk fjármálafyrirtæki hafa í vaxandi mæli sett umhverfismál og samfélagsábyrgð ábyrgð á oddinn þegar kemur að stefnumótun og daglegum rekstri. Þrátt fyrir það er álitamál hvort þau séu enn sem komið er í stakk búin að axla þá ábyrgð.  Þetta er meðal þess sem kom fram á málstofu SFF um mikilvægi umhverfismála og samfélagsstefnu fyrir fjármálafyrirtæki. Málstofan var haldin í tengslum við umhverfisdag atvinnulífsins þann 30. september.

Frummælendur á málstofunni voru þeir Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagslegri ábyrgð, Björgvin Ingi Ólafsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Íslandsbanka, og Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Sjóvar. Á þriðja tug gesta sóttu málstofuna  og sköpuðust líflegar umræður um erindin en Hildur Grétarsdóttir, gæðastjóri hjá Verði, stjórnaði umræðum fundarmanna. 

Finnur varpaði ljósi á stóra sviðið í erindi sínu og velti meðal annars upp þeirri spurningu hvort að áhættustýring fjármálafyrirtækja setji kíkinn fyrir blinda augað þegar kemur að mati á umhverfisáhættu í tengslum við fjármálastarfsemi. Finnur sagði meginhlutverk fjármálakerfa að tryggja stöðugleika – og þá ekki eingöngu hagkerfisins heldur einnig samfélagsins í heild enda hvorutveggja órjúfanlega samtvinnað. Fram kom í máli Finns að ljóst sé að umhverfisvandamál svo sem loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra á borð við vatnsskort og flóttamannavanda séu stærsta ógnin við stöðugleika hagkerfa þegar horft er fram til næstu áratuga. Þar af leiðandi hvíli á þeim skylda til að taka virkan þátt í lausn á aðkallandi umhverfismálum.

Fjármálafyrirtæki geta að sögn Finns axlað þá ábyrgð með því að móta virka stefnu sem felur í sér fjármögnun þeirra breytinga sem nauðsynlegt er að ráðast í í glímunni við umhverfisvanda eins og til dæmis loftslagsbreytingar. Hann bætti við að innra umhverfisstarf væri að sjálfsögðu nauðsynlegt en alls ekki nægjanlegt þegar kemur að fjármálafyrirtækjum. Í erindi Finns kom fram gagnrýni á að íslensk fjármálafyrirtæki hefðu ekki enn tekið þetta hlutverk nægilega alvarlega og að lokum velti hann upp þeirri spurningu hvort að stórfyrirtæki á borð við banka geti yfirhöfuð orðið leiðandi afl í slíkum umbreytingum.

Íslensk fjármálafyrirtæki geta stuðlað að breytingum

Björgvin Ingi lagði út frá orðum Finns í upphafi erindi síns. Hann benti á að íslensk fjármálafyrirtæki geti ekki með nokkru móti talist stór í alþjóðlegum samanburði og þar af leiðandi ætti sá þáttur ekki að hamla þeim að vera leiðandi í þessum efnum. Björgvin benti jafnframt á þróunina í Bandaríkjunum á undanförnum áratugum en þar hafa viðskiptatækifæri vegna aukinnar áherslu á umhverfismál orðið til þess að fjármálafyrirtæki hafi í vaxandi mæli orðið að jákvæðu hreyfiafli þegar kemur að umhverfisvernd. Í kjölfarið fór Björgvin yfir samfélagsstefnu Íslandsbanka sem ber nafnið Heildun og hvaða hlutverk hún spilar í samþættingu á áherslu bankans í umhverfismálum við daglegan rekstur.

Sæmundur fjallaði um áherslur Sjóvár í umhverfis og samfélagsmálum í erindi sínu. Hann benti á að kjarni allrar tryggingastarfsemi væri í raun samfélagslegur þar sem úrlausnarefni væri samstarf fólks um að dreifa áhættu á milli sín. Þar af leiðandi legðu stjórnendur Sjóvár áherslu að gera samfélagslega ábyrgð samofna hinum daglega rekstri félagsins. Það má til að mynda sjá í tjónaþjónustunni en Sæmundur sagði frá þvi að félagið hefði tekið upp stjörnugjöf bifreiðaverkstæða þar sem aðeins þau verkstæði sem uppfylla strangar kröfur varðandi gæðakerfi og förgun spilliefna, svo dæmu séu tekin, fá hæstu einkunn. Þá rakti hann hvernig mikill árangur hefði náðst við endurnýtingu varahluta í tjónaviðgerðum og að hann væri nú sambærilegur við það sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum.

Glærurnar með erindum frummælenda eru aðgengilegar í gagnasafni heimasíðu SFF. Glærur Finns má nálgast hér, glærur Björgvins má nálgast hér og glærur Sæmundar má nálgast hér.