Þriðjungur meðvitaður um vátryggingassvik

03. maí 2010

Capacent-Gallup framkvæmdi skoðanakönnun 10.-18. mars síðastliðinn til að meta viðhorf íslensks almennings á aldrinum 16-75 ára til vátryggingasvika. Þátttakendur voru spurðir 14 spurninga þar sem m.a var spurt um vitneskju viðkomandi um vátryggingasvik annarra, almenn viðhorf til vátryggingasvika og annarra fjársvika og hvort viðkomandi myndi tilkynna vátryggingasvik ef hægt væri að tilkynna slíkt nafnlaust.

Samkvæmt könnuninni hefur þriðji (30,3%) hver aðspurðra vitneskju um einhvern sem hefur fengið tryggingabætur sem hann átti ekki rétt á en það er aukning frá síðustu könnun árið 2009 þegar hlutfallið mældist 24,7%. Marktækur munur er á aldri, t.a.m. höfðu 47% aðspurðra á aldrinum 16-24 ára framangreinda vitneskju en einungis 19% aðspurðra á aldrinum 55 ára og eldri.

Tæplega 93% voru sammála því að vátryggingasvik væru alvarleg brot miðað við 87% í síðustu könnun. Viðhorf til vátryggingasvika virðast einnig vera háð aldri en könnunin gefur til kynna að elsti aldurshópurinn líti vátryggingasvik alvarlegri augum en yngsti aldurshópurinn.

Rúmlega helmingur (52,1%) telur líklegt að þeir myndu tilkynna um vátryggingasvik ef hægt væri að gera það nafnlaust, en 25,2% aðspurðra telja ólíklegt að þeir myndu tilkynna um slíkt.

Árið 2008 námu bótagreiðslur íslenskra vátryggingafélaga um 30 milljörðum króna. Sé miðað við áætlaða tíðni vátryggingasvika í nágrannalöndunum má gera ráð fyrir að 10%-15% greiddra tryggingabóta sé vegna vátryggingasvika. Því má gera ráð fyrir að kostnaður vegna vátryggingasvika á Íslandi sé ekki lægri en 3 milljarðar króna á hverju ári. Þegar upp er staðið endar kostnaðurinn af vátryggingasvikum á heiðarlegum viðskiptavinum félaganna sem þurfa að borga hærri iðgjöld sem þessu nemur.

SFF vinna að því með aðildarfélögum sínum á vátryggingamarkaði að leita leiða til að takmarka eins og kostur er vátryggingasvik og áhrif þeirra.

Stutt yfirlit yfir helstu niðurstöður könnunarinnar má nálgast hér.

Ítarlegra yfirlit yfir niðurstöður könnunarinnar ásamt sundurliðun á aldri, kyni og menntun má nálgast hér.