Starfsmenn aðildarfélaga SFF ljúka vottunarprófi

23. maí 2014

Vottaðir fjármálaráðgjafar.

Undanfarnar vikur hefur 61 starfsmaður aðildarfélaga Samtaka fjármálafyrirtækja lokið vottunarprófi. Um er að ræða útskrift úr námi tl vottunar fjármálaráðgjafa annarsvegar og vottunar tryggingastarfsmanna hinsvegar.

Í gær, 22. maí, útskrifuðust 35 starfsmenn fjármálafyrirtækja úr námi til vottunar fjármálaráðgjafa við hátíðlega athöfn sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík. Þetta er í þriðja sinn sem nemendur eru útskrifaðir úr náminu en það var sett á laggirnar haustið 2011. Á þessum tíma hafa 108 starfsmenn viðskiptabanka og sparisjóða lokið náminu og hlotið vottun. Að vottunarnáminu standa Samtök fjármálafyrirtækja, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Háskólinn á Bifröst, viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja.

Markmið vottunarinnar er að samræma þær kröfur sem eru gerðar til fjármálaráðgjafa og tryggja að þeir búi yfir nauðsynlegri þekkingu og færni í starfi. Verkefnið á sér norska fyrirmynd en slíkt vottunarferli hefur verið að ryðja sér til rúms í nágrannalöndunum á undanförnum árum.

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, ávarpaði útskriftargesti fyrir hönd stjórnar SFF. Hann sagði að námið sem leiðir til vottunar fjármálaráðgjafa sé mjög mikilvægt og bæti gæði þeirrar þjónustu og ráðgjafar sem sem starfsfólk fjármálafyrirtækja veitir viðskiptavinum. Vottunin gegni því veigamiklu hlutverki í að tryggja góða og ábyrga ráðgjöf og efli þar með traust á fjármálamarkaði.

Vátryggingastarfsmenn vottaðir

Góð reynsla af náminu til vottunar fjármálaráðgjafa varð til þess að skipulagi Tryggingaskólans var breytt síðastliðið haust en þá hófu fyrstu starfsmenn tryggingafélaganna nám til vottunar vátryggingastarfsmanna við Opna háskólann í Háskólanum í Reykjavík. Þann 10. apríl síðastliðinn útskrifuðust 26 nemendur eftir að hafa lokið vottunarprófinu.