SP og Avant sameinast Landsbankanum

09. maí 2011

Tvö dótturfélög Landsbankans hf. á sviði eignaleigu, SP-Fjármögnun hf. og Avant hf. verða sameinuð bankanum á næstunni. Félögin hafa verið alfarið í eigu Landsbankans um nokkurt skeið.

Tilgangur samrunans er fyrst og fremst að einfalda rekstur og bjóða viðskiptavinum upp á aukið vöruframboð og heildstæðari þjónustu. Félögin verða starfrækt í sjálfstæðri rekstrareiningu sem mun heyra beint undir bankastjóra Landsbankans.

Staða viðskiptavina Avant og SP-Fjármögnunar mun ekkert breytast vegna samrunans.

Tæplega sjötíu starfsmenn munu starfa í hinni nýju rekstrareiningu. Ekki hefur verið tekin ákvörðun undir hvaða vörumerki hún mun starfa.

Fyrirhugað er að samrunanum ljúki á haustmánuðum.