SFF efla fjármálafræðslu

14. janúar 2013

Frá undirritun samningsins í dag: Ragnhildur Björg Guðjónsdóttir, verkefnisstjóri átaksins, Höskuldur H. Ólafsson og Katrín Jakobsdóttir. Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson.

Í dag undirrituðu Höskuldur H. Ólafsson, formaður Samtaka fjármálafyrirtækja, og Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, samning um aðgerðir til að efla fjármálalæsi í grunn- og framhaldsskólum. Samningurinn var undirritaður í Hagaskóla í Reykjavík. Samkvæmt samningnum munu SFF fjármagna verkefnið en það snýst um tilraunakennslu í fjármálafræðslu í fjórum grunnskólum og tveimur framhaldsskólum.

Samstarf um eflingu fjármálalæsis hefur staðið yfir frá miðju ári 2011 þegar mennta- og meningarmálaráðherra skipaði stýrihóp til þess að efla fjármálafræðslu í grunn- og framhaldsskólum. Með undirritun samningsins er stefnt að því að efla þessa fræðslu markvisst með hliðsjón af gildandi lögum og aðalnámskrám. Sex skólar hafa verið valdir til tilraunakennslu í fjármálafræðslu. Á grunnaskólastigi eru það Melaskóli, Hagaskóli, Hafralækjaskóli og Litlu Laugaskóli og á framhaldsskólastigi Menntaskólinn á Akureyri og Fjölbrautarskólinn við Ármúla.

Bundnar eru miklar vonir við að tilraunakennslan leiði í ljós hvar og hvernig þessari fræðslu verði best fyrir komið í náminu þannig að tryggt sé að allir nemendur fái notið hennar í framtíðinni. Gerð verður könnun í upphafi og lok tilraunakennslu á fjármálalæsi nemenda og niðurstöðurnar nýttar til að skipuleggja kennslu á þessu sviði framtíðar. Markmiðið með kennslunni er að fræða ungmenni um fjármál og efnahagsmál til að þau verði hæfari til að fást við eigin fjármál og öðlast skilning á efnhagskerfinu. Þá er einnig stefnt að því að kennsla í fjármálum skipi hærri sess í skólum en nú er.

Í nýjum aðalnámsskrám er læsi skilgreint í víðum skilningi.  Í ræðu sinni lagði formaður SFF áherslu á að fjármálalæsið fengi sjálfstæðan sess í námsskrá til byggja undir öflugt nám á þessu sviði til framtíðar. 

Frétt Morgunblaðsins um undirritunina

Frétt Vísis um undirritunina