SFF áfrýja ákvörðun ESA vegna ÍLS

11. mars 2015

Þátttaka hins opinbera á markaðnum með almenn fasteignalán er kostnaðarsöm og skaðar íslenska skattgreiðendur. Í ljósi þessa hafa Samtök fjármálafyrirtækja áfrýjað ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá 16. júlí í fyrra um að starfsemi Íbúðalánasjóðs (ÍLS), að teknu tilliti til takmarkana sem íslensk stjórnvöld hafa sett  starfseminni, falli undir þjónustu í almannaþágu skv. 2. mgr. 59. gr. EES samningsins. Takmarkanirnar fela í sér að ÍLS er ekki  ekki lengur heimilt að veita lán til íbúðarhúsnæðis þegar  fasteignamat er hærra  en 40 m.kr.   Áfrýjunin var lögð fram 28. janúar.

Íbúðalánasjóður nýtur viðamikils ríkisstuðning í samkeppni sinni við fjármálafyrirtæki um veitingu almennra fasteignalána. Hann birtist meðal annars í formi ríkisábyrgðar á skuldum sjóðsins, undanþágu frá sköttum s.s. tekjuskatti og sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki, engri arðsemiskröfu og í beinum eiginfjárframlögum en íslenska ríkið hefur lagt til um 50 milljarða króna til sjóðsins á undanförnum árum.

Að mati Samtaka fjármálafyrirtækja er ekki hægt að una við þessari niðurstöðu ESA.  Sú takmörkun sem ESA leggur til á almennri lánastarfsemi ÍLS er óveruleg.  Það sést glögglega þegar horft er til þeirrar staðreyndar að um 87% af eignum á Íslandi á árinu 2014 voru með lægra fasteignamat en 40 m.kr. Hlutfallið er 99% þegar horft er til eigna utan höfuðborgarsvæðisins.

SFF fallast ekki á þá skoðun að hægt sé að skilgreina  almenna fasteignalánastarfsemi ÍLS sem nauðsynlega í þágu almannahagsmuna. Bankar og sparisjóðir hafa um áratuga skeið verið virkir þátttakendur í fjármögnun almennra lána til kaupa og fjárfestinga í íbúðarhúsnæði og á undanförnum árum hafa þessir aðilar veitt rúmlega 80% þeirra nýju lána sem runnið hafa til íbúðarkaupa.  Það sem helst hefur takmarkað lánastarfsemi banka og sparisjóða á sviði íbúðalána undanfarna áratugi eru undirboð ÍLS og fyrirrennara hans í krafti ríkisstuðnings.

Vegna þessa hafa SFF ákveðið að stefna ESA til EFTA dómstólsins til ógildingar á ákvörðuninni. Er byggt á því að ákvörðun ESA sé haldin alvarlegum ágöllum. Þannig sé ríkisstuðningur til ÍLS ranglega flokkaður og jafnframt skorti rökstuðning fyrir mikilvægum forsendum ákvörðunarinnar.

Tilkynning EFTA dómstólsins má nálgast hér.