Samningur vegna FATCA í höfn

02. desember 2014

Íslensk stjórnvöld hafa tilkynnt um að þau hafi áritað samning við bandarísk stjórnvöld vegna FATCA (e. Foreign Accounts Tax Compliance Act). Þar með líta bandarísk stjórnvöld svo á að samningur um upplýsingaskipti vegna FATCA hafi komist á. Hér má nálgast lista yfir þau lönd sem gert hafa samning við Bandaríkin vegna FATCA.

Eins og fram kemur í tilkynningu á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins þá felur FATCA-löggjöfin það í sér að fjármálafyrirtækum utan Bandaríkjanna er gert að senda árlega upplýsingar um tekjur og eignir bandarískra skattgreiðenda beint til bandarískra skattyfirvalda. Frá og með 1. júlí í sumar þurftu íslensk fjármálafyrirtæki að safna fyrir bandarísk skattayfiröld upplýsingum um eignir sem bandarískir skattgreiðendur eiga á reikningum á Íslandi.  

Til þess að kynna málið fyrir viðskiptavinum aðildarfélaganna, sem kunna að falla undir FATCA, tóku SFF saman  upplýsingablað þar sem helstu þættir málsins eru reifaðir. Upplýsingablaðið má nálgast hér.

Samningurinn á milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda mun auðvelda íslenskum fjármálafyrirtækjum að uppfylla kröfur vegna FATCA og mun ríkisskattstjóri hafa milligöngu um upplýsingaskiptin.