Ríkissjóður greiðir skuldabréf fyrirfram fyrir 57 milljarða

04. maí 2011

Í útboði meðal fjárfesta í skuldabréfum ríkissjóðs sem lauk í gær samþykkti Seðlabanki Íslands, fyrir hönd ríkissjóðs, að kaupa á nafnverði erlend skuldabréf ríkissjóðs sem falla í gjalddaga árin 2011 og 2012 fyrir um 346 milljónir evra (jafnvirði um 57 ma.kr.)

Um er að ræða tvö skuldabréf ríkissjóðs Íslands í evrum sem upphaflega voru að fjárhæð 1.000 milljónir evra og 250 milljónir evra (samtals 204 ma.kr.) að nafnvirði. Seðlabankinn hafði þegar keypt hluta þessara bréfa á markaði, en fyrir kaupin í gær voru samtals um 800 milljónir evra (130 ma.kr.) útistandandi. Að loknu útboði standa eftir samtals 454 milljónir evra af þessum skuldabréfum sem koma til gjalddaga á árunum 2011 og 2012. Þessi kaup eru þáttur í lausafjár- og skuldastýringu ríkisjóðs, en einnig liður í gjaldeyrisforðastýringu Seðlabanka Íslands.

Eins og fram kom í frétt Seðlabanka Íslands frá 15. apríl sl. nam gjaldeyrisforði Seðlabankans 767 ma.kr. (4,7 ma. evra) í lok mars 2011. Seðlabankinn og ríkissjóður eru því í góðri stöðu til að greiða þau erlendu lán sem falla í gjalddaga samkvæmt lánasamningum á næstu árum, þar á meðal þau skuldabréf sem hér um ræðir. Endurkaupin skapa einnig tækifæri til að bæta ávöxtun gjaldeyrisforðans í núverandi lágvaxtaumhverfi.