Ræðurnar frá SFF-deginum komnar á vefinn

11. desember 2013

Höskuldur H. Ólafsson, formaður stjórnar SFF, ávarpaði fundarmenn.

Ræðurnar sem voru fluttar á ráðstefnu SFF um fjármálafræðslu á SFF-deginum eru nú aðgengilegar á Youtube-rás Samtaka fjármálafyrirtækja.

Um 150 manns sóttu ráðstefnuna sem fór fram 5. desember. Ráðstefnan var haldin í tilefni hins árlega SFF-dags.

Höskuldur H. Ólafsson, formaður stjórnar SFF, setti ráðstefnuna. Í ræðu sinni fór Höskuldur yfir áherslur SFF í fræðslumálum. Hann fagnaði því sérstaklega að samstarf stjórnvalda og samtakanna væri  komið í góðan farveg og sagði stjórn samtakanna binda miklar vonir við að það muni skila umtalsverðum árangri í að efla fjármálalæsi á Íslandi. Höskuldur var þar að vísa í sérstakt samstarfsverkefni um eflingu fjármálafræðslu sem SFF áttu frumkvæði að ýta úr vör og felur meðal annars í sér tilraunakennslu í fjármálfræðslu í grunn- og framhaldsskólum.

Höskuldur kom víðar við í ræðu sinni. Hann gagnrýndi meðal annars miklar hækkanir á ótekjutengdum gjöldum fjármálafyrirtækja og benti á að slík gjöld hafi bein áhrif á kostnað fyrirtækjanna og sagði mótsagnakennt að ráðast í svo miklar hækkanir á sama tíma og stjórnmálamenn kalli eftir lægri vaxtamun og lægri kostnaði við rekstur fjármálafyrirtækja. Höskuldur sagði jafnframt að aðildarfyrirtæki SFF væru stolt af því að leggja umtalsverð lóð á vogarskálarnar þegar kemur að rekstri hins opinbera en hins vegar blasi við að þegar skattheimta og álagning opinberra gjalda verður umfram það sem getur talist eðlilegt þá bitnar það á endanum á þeirri mikilvægu þjónustu sem fjármálafyrirtæki veita heimilum og fyrirtækjum. Ræða Höskuldar er aðgengileg hér.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, ávarpaði ráðstefnuna.  Ráðherrann ræddi meðal annars um stöðu menntamála ungmenna í ljósi niðurstöðu PISA-könnunar sem hann sagði óásættanlega. Þegar talið barst að fjármálafræðslu fagnaði ráðherrann sérstaklega þeim áhuga sem SFF hafa sýnt fjármálafræðslu gegnum tíðina og sagðist með ánægju beita sér fyrir því að góður árangur næðist í samstarfi ráðuneytis og SFF á þessu sviði. Illugi sagði að starfshópurinn sem komi að verkefninu um eflingu fjármálalæsis hefði skilað gagnlegu og merkilegu starfi og framundan væri að taka ákvarðanir um hvernig fjármálafræðslu verði háttað innan skólakerfið til frambúðar. Hann sagðist hafa mikinn metnað, líkt og forverar hans í ráðherrastól, að ná betri árangi þegar kemur að fjármálafræðslu. Ráðherrann sagðist vita til þess að mörgum þætti að hlutirnir hefðu mátt miða hraðar í eflingu fjármálafræðslu en bað menn að sýna þolinmæði. En hann sagði ennfremur að áhugi SFF hafi skipt miklu máli og að vandamál á borð við skort á fjármálæsi barna og ungmenna verði ekki leyst eingöngu innan skólakerfisins. Frumkvæði SFF væri þakkarvert enda væri það gott dæmi um jákvæð áhrif utan skólakerfisins  sem miða að því að ná betri árangri  innan þess. Ávarp  Illuga er aðgengilegt hér.

Arthur Reitsma, sérfræðingur hollensku bankasamtakanna í fræðslumálum, flutti erindi um fjármálafræðslu í heimalandi sínu, en Hollendingar standa mjög framarlega í þessum efnum. Hollensku bankasamtökin eru mjög virk í fræðslumálum og beita sér fyrir nokkrum verkefnum á þeim vettvangi sem hafa það að markmiði að auka meðvitund ungs fólks um mikilvægi þess að vera læs á sín fjármál. Ræða Arthur Reitsma er aðgengileg ásamt glærulynningu í tveim pörtum: sá fyrri hér og sá síðari hér.

Viggó Ásgeirsson, stofnandi og mannauðsstjóri Meniga, hélt svo erindi um hvernig  lausnir fyrirtækisins aðstoða fólk að ná stjórn á fjármálum sínum og öðlast yfirsýn yfir hvernig það ver ráðstöfunartekjum sínum. Ræða Viggós ásamt kynningu er aðgengileg hér.

Að lokum stýrði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins, pallborðsumræðun með þátttöku kennara og starfsmanna aðildarfélaga SFF. Þeir sem tóku þátt í umræðunum voru Mjöll Matthíasdóttir, grunnskólakennari og fulltrúi í stýrihópi um fjármálalæsi, Petra Bragadóttir, formaður Samtaka kennara í viðskipta- og hagfræðigreinum, Brynjólfur Sævarsson, útibússtjóri Landsbankans í Vesturbæ, og Fjóla Guðjónsdóttir, forstöðumaður forvarna hjá Sjóvá. Umræðunnar voru líflegar og voru allir þátttakendur pallborðsins sammála um hversu mikilvægt það sé að styrkja fræðslu á þessu sviði. Þá kom fram í umræðunum að á vinnustofu sem haldin var með nemendum kom fram skýr afstaða þeirra um mikilvægi þess að styrkja sess fjármálafræðslu í kennslunni enn frekar. Pallborðsumræðurnar eru aðgengilegar hér.