Nauðsynlegar úrbætur á verðbréfamarkaði

16. október 2014

Mikilvægt er að innlendur verðbréfamarkaður starfi eftir alþjóðlega viðurkenndri umgjörð. Þannig geti hann þjónað sem lærdómsferli fyrir aðgang að stærri mörkuðum fyrir útgefendur verðbréfa, milliliði og fjárfesta hér á landi, en einnig greitt fyrir aðgengi erlendra þátttakenda að íslenskum markaði. Jafnframt þarf uppbygging markaðarins að vera einföld og hagkvæm og auka þannig möguleika útgefenda til að afla sér fjármagns. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu verðbréfahóps Samtaka fjármálafyrirtækja um úrbætur á umgjörð verðbréfamarkaðarins. Í skýrslunni er að finna tuttugu og tvær úrbótatillögur.

Í ársbyrjun ákvað stjórn SFF að stofna stýrihóp vegna verkefnis um starfsumgjörð verðbréfamarkaðar. Undir starfshópnum störfuðu síðan þrír vinnuhópar sérfræðinga úr aðildarfélögum SFF. Þessir hópar fengu það hlutverk að fara yfir eftirfarandi þætti verðbréfamarkaðarins: viðskipti með verðbréf; uppgjör viðskipta og skattamál og opinbert eftirlit og starfsemi lífeyrissjóða. Sem fyrr segir eru úrbótatillögur hópsins tuttugu og tvær talsins en á fundi stjórnar SFF í september var ákveðið að leggja sérstaka áherslu á átta forgangsatriði:


• Auknar heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga á First North.

 

  •  Lækkun viðskiptakostnaðar NASDAQ OMX og Verðbréfaskráningar Íslands.
  • Rýmka íþyngjandi ákvæði sem skyldar fjármálafyrirtæki til að upplýsa um nöfn og eignarhald þeirra sem eiga allt niður í 1% eign í viðkomandi fyrirtæki á hverjum tíma. 
  • Breytingu á lögum um tekjuskatt þannig að ekki þurfi að koma til innlausnar hlutdeildarskírteina við samruna sjóða.
  • Undanþága frá staðgreiðslu skatts nái til allra fjármálafyrirtækja en ekki eingöngu banka, sparisjóða og lánafyrirtækja.
  • Einfalda reglur um afdráttarskatt af vaxtatekjum sem greiddar eru úr landi
  • Bæta úr því ójafnræði sem gjaldeyrishöftin hafa skapað á milli innlendra og erlendra vörsluaðila séreignasparnaðar.
  • Úrbætur á uppgjörsaðferðum lífeyrissjóða til að stuðla að skilvirkari verðmyndum á skuldabréfamarkaði.


Á næstunni munu fulltrúar SFF funda með stjórnvöldum og öðrum hagsmunaðilum til að kynna niðurstöður skýrslunnar og vinna framgangi úrbóta tillagna verðbréfahóps. Skýrsluna má nálgast hér.