Mikilvægt að auka skilvirkni fjármálakerfisins

26. nóvember 2015

Íslenskur fjármálamarkaður stendur á tímamótum nú þegar afnám fjármagnshafta er í sjónmáli. Uppgangur er í efnahagslífinu, kaupmáttur fer vaxandi og atvinnuleysi er lítið og aðgerðir fjármálafyrirtækja og stjórnvalda hafa dregið úr skuldsetningu fyrirtækja og heimila á undanförnum árum. Þetta kom fram í ræðu Steinþórs Pálssonar, stjórnarformanns Samtaka fjármálafyrirtækja á  SFF-deginum í dag.

Steinþór benti á þrátt fyrir góða stöðu efnahagslífsins væri miklar áskoranir framundan. Þrátt fyrir að umbreyting hafi orðið á skuldastöðu heimila og fyrirtækja verði menn að forðast að endurtaka mistök fyrri tíma. Einn af þeim lærdómum sem draga mætti af fjármálakreppunni er hversu skaðleg ósjálfbær skuldsetning geti verið. Það sé því mikilvægt að ríkið gangi fram með góðu fordæmi og greiði niður skuldir sínar til þess að það sé betur í stakk búið að mæta næstu niðursveiflu. Slíkar áherslur bæti jafnframt lánshæfiseinkunn ríkisins og það styrki grunnstoðir efnahagslífsins enn frekar. Steinþór sagði einnig að fjármálafyrirtæki þyrftu að axla sína ábyrgð í þessum efnum: „Ef skuldsetning hækkar mikið á ný þá séu allar líkur á því að fjármálakerfinu verði kennt um ef illa fer í næstu niðursveiflu.“

Eitt af megináherslumálum Samtaka fjármálafyrirtækja er efling samkeppnishæfis íslenskra fjármálamarkaða. Steinþór sagði í þessu samhengi að hagkvæmni stærðar skiptir máli en hafa verði hugfast að  íslensk fjármálafyrirtæki eru afar smá í samanburði við það sem við sjáum erlendis út frá flestum mælikvörðum. Í því samhengi mætti nefna að bankakerfið yrði aðeins 1,5 föld landsframleiðsla eftir að slitabú föllnu bankanna hafa farið gegnum nauðasamninga á meðan að meðaltalið í Evrópu væri um þreföld landsframleiðsla. Til þess að vega á móti þessu sé nauðsynlegt að ná fram frekari hagræðingu á fjármámálarkaðnum að mati Steinþórs. Vísaði hann í því samhengi til vinnu SFF í þessum málum en samkvæmt úttekt sem samtökin létu gera þá eiga fjármálafyrirtæki á Norðurlöndum með sér mikið samstarf um rekstur grunnkerfanna sem fjármálamarkaðurinn er í meira mæli en talið hefur verið eðlilegt hér á landi, meðal annars út frá samkeppnissjónarmiðum. Nauðsynleg sé að byggt verði frekar á grunni þessarar vinnu til þess að hægt sé að draga lærdóm af því sem er gert erlendis og kallaði Steinþór eftir samstarfi fjármálafyrirtækjanna og opinerra aðila þannig að hægt verði að auka skilvirkni fjármálamarkaðarins enn frekar til hagsbóta fyrir efnahagslífið.

Steinþór tók fram að skattar á fjármálafyrirtækin séu mun hærri hér á landi en erlendis. „Þessu miklu skattar draga úr samkeppnishæfni atvinnugreinarinnar og um leið Íslands, þar sem þeir leggjast í raun á heimilin og fyrirtækin í landinu.  Skattahækkanir á fjármálakerfið þurfa að ganga til baka, enda voru þær gerðar til að fjármagna sértækar og tímabundnar aðgerðir.“ 

Að lokum sagði Steinþór að mikil sóknarfæri væru framundan en hins vegar þyrftu menn að vera meðvitaðir um áhætturnar sem eru til staðar ef ekki sé rétt haldið á spöðunum. Einnig lagði hann áherslu á að fyrirhugaðar breytingar á eignarhaldi ríkisins á bönkunum takist vel.