Mikill áhugi á rafrænum þinglýsingum

11. desember 2015

Um fimmtíu manns sóttu málstofu SFF um rafrænar þinglýsingar sem fór fram fimmtudaginn 10. desember. Á fundinum fór Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár Íslands, yfir stöðu verkefnisins og svo fjallaði Sigurjón Friðjónsson, sviðsstjóri hjá sömu stofnun, um hvernig rafrænar þinglýsingar muni virka tæknilega og að lokum fjallaði Svavar G. Svavarsson, verkefnisstjóri hjá Admon, um aðkomu fjármálafyrirtækja að innleiðingu rafrænna þinglýsinga. Vigdís Halldórsdóttir, lögfræðingur hjá SFF, stjórnaði fundi og umræðum fundarmanna.

Meðal þess  sem fram kom á fundinum er að búist er við hægt verði að þinglýsa með rafrænum hætti næsta sumar en eins og fram hefur komið í fréttabréfi SFF þá fengu samtökin frumvarpsdrög um rafrænar þinglýsingar til umsagnar í október. Í stuttu máli fögnuðu samtökin tilkomu frumvarpsins í umsögninni enda sé verið að leggja grunn að stóraukinni skilvirkni og hagræði þegar kemur að þinglýsingum. Rafrænar þinglýsingar fela í sér verulegan tímasparnað og mikið hagræði en eins og fram kemur í frumvarpsdrögunum þá má ætla að fjármálafyrirtæki geti sparað hátt í 300 milljónir króna á ári hverju með rafrænum þinglýsingum.

Þá kom einnig fram að notast verður við rafræn skilríki við undirskrift rafrænna þinglýsinga og að fjármálafyrirtæki þurfi að smíða sérstakt kerfi til þess að tengjast tölvukerfinu sem Þjóðskrá rekur vegna rafrænna þinglýsinga.  Í umræðum fundarmanna var bent á að þegar rafrænar þinglýsingar voru teknar í gagnið í Danmörku þá fengu þarlendir bankar heimild frá samkeppnisyfirvöldum til þess að smíða slíkt kerfi í sameiningu.

Glærurnar með erindum fundarmanna eru aðgengilegar hér.