Menntadagur atvinnulífsins er í dag

03. mars 2014

Menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu verður í kastljósinu í dag á Menntadegi atvinnulífsins. Um 300 manns úr atvinnulífi, stjórnmálum og menntakerfinu hafa boðað komu sína á ráðstefnu um menntamál atvinnulífsins sem hefst kl. 13 á Hilton Reykjavík Nordica. Dagskrá ráðstefnunnar verður send út í beinni útsendingu á vefnum en sérstakur gestur menntadagsins er Dr. Andreas Schleicher, yfirmaður menntamála hjá Efnahags- og framfarastofnuninni OECD.

Efling menntunar og framhaldsfræðslu er brýnt hagsmunamál fyrirtækja því það eykur samkeppnishæfni þeirra. Á Menntadegi atvinnulífsins munu forsvarsmenn fjölbreyttra fyrirtækja fjalla um mikilvægi menntunar starfsfólks og nauðsynlegar breytingar á menntakerfinu. Greint verður frá áhugaverðum niðurstöðum nýrrar rannsóknar á viðhorfum framahaldsskólanema á Íslandi til bóknáms og verknáms.

Dagskrá Menntadags atvinnulífsins

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða veitt í dag á ráðstefnunni en átta fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála eru tilnefnd til verðlaunanna.

Isavia, Landsbankinn, Rio Tinto Alcan á Íslandi og Samskip eru tilnefnd sem Menntafyrirtæki ársins.  

Codland, Landsnet, Leikskólinn Sjáland og Nordic Visitor eru tilnefnd sem Menntasproti ársins.

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra afhendir verðlaunin en auk heiðursins hljóta starfsmannafélög fyrirtækjanna sem fá verðlaunin 100 þúsund krónur hvort.

Sjáðu hvers vegna fyrirtækin eru tilnefnd

Ráðstefnustjóri er Eggert B. Guðmundsson, forstóri N1.

Samtök atvinnulífsins ásamt SAF, SI, SVÞ, SF, SFF, LÍÚ og Samorku standa að Menntadegi atvinnulífsins. Allir eru velkomnir og er ekkert þátttökugjald en nauðsynlegt er að skrá þátttöku hér að neðan. 

SMELLTU HÉR TIL AÐ SKRÁ ÞIG

Slóð á beina útsendingu frá Menntadegi atvinnulífsins verður birt á forsíðu vefs SA kl. 12.30 en útsendingin hefst kl. 13.