Kröfuhafar eignast 19% í Landsbankanum

16. desember 2009

Íslensk stjórnvöld, skilanefnd Landsbanka Íslands hf. og Landsbankinn (NBI hf) hafa undirritað endanlegt samkomulagi um uppgjör á eignum og skuldum vegna skiptingar bankans. Fulltrúar helstu kröfuhafa hafa tekið þátt í samningaviðræðunum.

Í samkomulaginu felst að Landsbankinn (NBI hf) gefur út skuldabréf til gamla bankans að fjárhæð 260 ma.kr. til 10 ára. Skuldabréfið er gengistryggt og tryggir Landsbankanum þannig erlenda fjármögnun. Skuldabréfið er afborgunarlaust fyrstu fimm árin. Þá er gert ráð fyrir að gefin verði út hlutabréf til gamla bankans að fjárhæð 28 ma.kr. sem svarar til um 19% heildarhlutafjár Landsbankans (NBI hf).

Heildarfjárhæð skuldabréfsins og hlutabréfanna samsvarar mati Landsbankans (NBI hf) á yfirteknum eignum umfram skuldir, en er lágmarksverðmæti eignanna að mati skilanefndar og ráðgjafa hennar. Fari svo að verðmæti yfirfærðra eigna reynist meira en mat Landsbankans (NBI hf) gerir ráð fyrir mun bankinn gefa út viðbótarskuldabréf til gamla bankans sem gæti numið 92 milljörðum króna, en þess í stað kæmu áðurnefnd hlutabréf til baka. Gangi það eftir og vegni bankanum vel er gert ráð fyrir að hluti þess renni til allra starfsmanna bankans. Lokamat verður lagt á eignirnar í árslok 2012.

Með samkomulaginu verður eignarhlutur ríkissjóðs í Landsbankanum (NBI hf) um 81% en gæti orðið töluvert hærri ef efnahagsþróun reynist hagstæð fram til loka ársins 2012 sem yrði til þess að nýi bankinn gæfi út viðbótarskuldabréf. Við samningagerðina nutu íslensk stjórnvöld ráðgjafar breska ráðgjafarfyrirtækisins Hawkpoint og skilanefnd Landsbankans ráðgjafar Barclays Capital.

Hlutafé Landsbankans (NBI hf) verður 150 ma.kr. og mun ríkissjóður leggja fram 122 ma.kr. í formi ríkisskuldabréfa. Framlag ríkisins verður því 5 ma.kr. lægra en gert var ráð fyrir í því samkomulagi sem kynnt var í október.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir: „Það samkomulag gert hefur verið við skilanefnd Landsbanka Íslands er lokaskref ríkisstjórnarinnar í endurreisn bankanna þriggja. Samkomulagið uppfyllir öll meginmarkmið ríkisstjórnarinnar um að við stöndum nú að nýju uppi með traust bankakerfi, að sanngjarnt uppgjör við kröfuhafa hafi farið fram og að útlit er fyrir ásættanlega ávöxtun á eiginfjárframlagi ríkisins“.

Lárentsínus Kristjánsson formaður Skilanefndar Landsbanka Íslands segir: „Niðurstaðan er mjög ásættanleg fyrir Skilanefnd Landsbanka Íslands hf. og ánægjulegt er að búið sé að fá niðurstöðu í málið. Samningaferlið hefur verið mjög mikilvægt verkefni sem mikil vinna hefur verið lögð í. Samningurinn markar ákveðin tímamót og gerir okkur kleift að setja aukinn kraft í önnur stór og veigamikil verkefni.“

Upprunalegu fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins má nálgast hér.