Kemur til greina að endurskoða hækkun á fjársýsluskatti

02. nóvember 2012

Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, ávarpaði fundargesti.

Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, sagði í ávarpi sínu á SFF-deginum í gær að til greina kæmi að endurskoða áform ríkisstjórnarinnar um að hækka fjársýsluskattinn sem er lagður á launagreiðslur fjármálafyrirtækja. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir að að hann skili ríkissjóði 5,9 milljörðum króna á næsta ári. Að óbreyttu yrði það 20% hækkun á skattheimtunni milli ára.

Yfirskrift SFF-dagsins í ár var „Leikreglur til framtíðar“. Í ávarpi sínu lagði Katrín mikla áherslu á að leikreglur á fjármálamarkaði væru skýrar og tryggðu að almenningur þyrfti ekki að bera kostnað af því sem kynni að fara úrskeiðis við rekstur fjármálafyrirtækja.

Höskuldur H. Ólafsson, formaður stjórnar SFF fagnaði því í ræðu sinni að tillögur G3-hópsins svokallaða um umbætur á íslenskum fjármálmarkaði byggðu á því grunnstefi að regluverkið hér eigi að vera sambærilegt við regluverk í nágrannalöndunum og á meginlandi Evrópu. Höskuldur benti á að íslenskur fjármálamarkaður tilheyri þrátt fyrir allt hinu Evrópska efnahagsvæði.  Séríslensk afbrigði af lögum og reglum um fjármálageirann séu  til þess fallnar að grafa undan samkeppnishæfni hans og getu til að styðja við bakið á íslenskum fyrirtækjum og heimilum.  Í ljósi þess væri miður  að stjórnvöld hafi á undanförnum árum kosið að skapa fjármálamarkaðnum séríslenska umgjörð sem þekkist ekki annarstaðar. Þetta hafi fyrst og fremst komið fram í skattastefnu stjórnvalda, en auk almennra skattahækkana hafa verið lagðir séríslenskir skattar á fjármálageirann.  Formaður SFF varaði við slíkri þróun sem græfi  undan getu fjármálageirans til að styðja við bakið á íslensku efnahagslífi og drægi úr nauðsynlegri fjárfestingu.

Guido Ravoet, framkvæmdastjóri Evrópsku bankasamtakana, fjallaði um þær breytingar sem hafa átt sér stað á evrópsku regluverki á undanförnum árum og hvað felst í tillögum Liikanen-nefndarinnar og tilraunum á vettvangi ESB til að koma bankabandalagi á laggirnar. Olav Jones, aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópsku tryggingasamtakanna, fór svo yfir hvernig breytingarnar í Evrópu horfa við tryggingageiranum.

Að lokum fjallaði Jón Sigurðsson, meðlimur G3-sérfræðihópsins, um tillögur hópsins um heildarumgjörð fjármálastöðugleika. Tillögurnar voru sem kunnugt er kynntar í október en fram kom í ávarpi Katrínar að vinna væri þegar hafin í stjórnsýslunni að gerð frumvarpa um fjármálamarkaðinn sem byggjast á þeim.

Glærur ræðumanna eru aðgengilegar í gagnasafni heimasíðu SFF.