Kærumálum fækkar úr 202 í 20

20. ágúst 2019

Málum sem skotið er til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki hefur fækkað mikið á undanförnum árum.  Í fyrra bárust nefndinni einungis 20 mál og hefur fmálafjöldinn ekki verið lægri í meira en áratug.Fjármálaeftirlitið vistar Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki, en nefndin fjallar um ágreining viðskiptamanna við lánastofnanir, verðbréfafyrirtæki og dótturfyrirtæki ofangreindra fyrirtækja.  Einnig fjallar nefndin um ágreining um yfirfærslur á milli viðskiptareikninga yfir landamæri. Málum sem skotið var fyrir nefndina fjölgaði mikið á árunum 2009 til 2016. Þannig voru að meðaltali  135 máliskotið árlega  til nefndarinnar  á árunum 2011 til 2014. Árið 2012 var flestum málum skotið fyrir nefndina eða samtals 202 málum.

Samkvæmt upplýsingum frá FME voru flest málanna sem skotið var til nefndarinnar 2018 vegna ábyrgða, veðsetninga og greiðslumats en einnig vegna niðurfellingar skulda og afskrifta lána. Í 15% tilfella var úrskurðað sóknaraðila í vil en samið var um málalok í 5% tilfella. Nefndin hafnaði að taka mál til umfjöllunar í 65% tilfella og 15% mála var vísað frá í fyrra. Fjármálaeftirlitið vistar einnig Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, en nefndin fjallar um ágreining um bótaskyldu, þar með talið sök og sakarskiptingu milli neytenda og vátryggingafélags. Samkvæmt upplýsingum frá FME var fjöldi mála sem bárust nefndinni á árinu 2018  409 samanborið við 423 árið áður. Úrskurðir kæranda í vil voru 33% og er það aðeins hærri tala en verið hefur síðustu ár.