Jákvæðni og traust á fjármálafyrirtækjum eykst

04. júlí 2013

Um 59% Íslendinga eru jákvæðir gagnvart sínum aðalviðskiptabanka og um 56% jákvæðir gagnvart sínu aðaltryggingafélagi. Þetta sýna niðurstöður könnunar sem markaðsrannsóknafyrirtækið MMR gerði fyrir Samtök fjármálafyrirtækja í júní.

Samtök fjármálafyrirtækja hafa kannað afstöðu fólks til fjármálafyrirtækja á undanförnum árum.  Könnunin í ár sýnir að Íslendingar eru til muna  jákvæðari nú en á undanförnum árum gagnvart þeim viðskiptabönkum og tryggingafélögum sem þeir eiga í viðskiptum við. Þannig var hlutfall þeirra sem voru mjög eða frekar jákvæðir gagnvart viðskiptabanka sínum 39% árið 2010 og hlutfall þeirra sem voru jákvæðir gagnvart sínu tryggingafélagi tæplega 42%.

Einnig var spurt um traust í könnuninni. Samkvæmt henni bera tæplega 50% traust til síns aðalviðskiptabanka og tæplega 49% til síns aðaltryggingafélags. Árið 2010 bar hinsvegar einungis þriðjungur landsmanna traust til síns aðalviðskiptabanka og aðaltryggingafélags samkvæmt könnuninni. Sama þróun er staðfest þegar spurt er um fjármálageirann í heild sinni.

Um 10% eru mjög eða frekar jákvæðir gagnvart fjármálafyrirtækjum almennt en hlutfallið var einungis um 3% árið 2010. Um 37% sögðust vera bæði jákvæðir og neikvæðir gagnvart geiranum. Ríflega 9% bera traust til fjármáfyrirtækja hér á landi sem er mikið stökk frá fyrri árum, en hlutfallið var einungis 3% árið 2010. Um 36% bera hvorki mikið né lítið traust til fjármálafyrirtækja almennt.

Að mati Samtaka fjármálafyrirtækja staðfestir könnunin að fjármálafyrirtæki eru á réttri braut og að hluti að því trausti sem glataðist hefur verið endurheimt. Þrátt fyrir að aðstæður í efnahagsmálum hafi verið erfiðar á undanförnum árum þá eru einstaklingar almennt jákvæðir gagnvart þeim fjármálafyrirtækjum sem þeir eiga í viðskiptum við eins og könnunin sýnir. SFF hafa á undanförnum árum lagt áherslu að það muni taka langan tíma að endurheimta traust viðskiptavina á nýjan leik en könnunin í ár er hinsvegar skýr vísbending um að fjármálageirinn er á réttri leið.

Niðurstöður könnunarinnar má nálgast hér.