Íþyngjandi séríslensk ákvæði laga og reglna á fjármálamarkaði

28. október 2014

Eitt helsta áherslumál Samtaka fjármálafyrirtækja er að lög og reglur íslensks fjármálamarkaðar séu sambærilegar við það sem þekkist í öðrum Evrópuríkjum. Því miður hefur þróunin í þessum efnum verið óhagstæð á undanförnum árum. Til að vekja á þessu athygli hafa SFF tekið saman yfirlit yfir íþyngjandi séríslensk ákvæði laga og reglna á fjármálamarkaði.

Á sameiginlegri málstofu SFF og FME í júní 2014 var rætt um að gengið hafi verið langt hér á landi íþyngjandi lagasetningu á fjármála- og vátryggingageirann. Eins og fram kom á málstofunni þá er mikill fjöldi ESB reglna sem innleiða þarf hérlendis á næstu misserum. Í því ljósi telja SFF mikilvægt að huga að því að tryggja sem best samræmi í innleiðingu við önnur ríki og lagfæra séríslenskar reglur þar sem gengið hefur verið lengra en annars staðar.

Íslensk fjármálafyrirtæki og fjármálamarkaður eru agnarsmá samanborið við það sem þekkist víðast, auk þess sem mikill munur er á eðli og stærð fjármálafyrirtækja á hérlendum markaði. Taka þarf tillit til þess við innleiðingu á regluverki fjármálamarkaðar og í eftirliti. Gæta þarf þess að gera hlutina ekki of flókna, m. a. með séríslenskum reglum til viðbótar við alþjóðaregluverkið. Ekki er ástæða til að flýta sér um of við innleiðingu á reglum ESB, innan þess tímaramma sem gefinn er, og gæta þarf að áhrifum regluverks á beinan og óbeinan kostnað fjármálafyrirtækja. Þetta er í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar frá því í september 2013 en þar kemur fram að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir endurskoðun regluverks atvinnulífsins með einföldun og aukna skilvirkni að leiðarljósi.

Yfirlitið er aðgengilegt á gagnasafni heimasíðu SFF og má finna hér.