Höskuldur Ólafsson ráðinn bankastjóri Arion banka

23. apríl 2010

Stjórn Arion banka hefur ráðið Höskuld H. Ólafsson í starf bankastjóra Arion banka og mun hann taka til starfa eigi síðar en 1. júní næstkomandi. Höskuldur var valinn úr hópi 40 umsækjenda sem sóttu um stöðuna þegar Arion banki auglýsti eftir bankastjóra í desember sl.

Ný stjórn Arion banka sem tók til starfa 18. mars sl. hefur unnið að ráðningu bankastjóra undanfarnar vikur. Við val á nýjum bankastjóra var sérstaklega litið til þess að viðkomandi hefði víðtæka stjórnunarreynslu, m.a. úr fjármálageiranum og byggi yfir hæfileikum til að stýra einum af stærstu bönkum landsins á umbreytingaskeiði í íslensku efnahagslífi. Höskuldur hefur verið forstjóri Valitor - Visa Ísland síðastliðin fjögur ár en þar áður gegndi hann margvíslegum stjórnunarstörfum hjá Eimskip í 17 ár, hér á landi og erlendis.

Höskuldur H. Ólafsson, verðandi bankastjóri Arion banka: „Ég hlakka til að takast á við þau krefjandi verkefni sem bíða mín sem bankastjóra Arion banka. Við erum á afar mikilvægu uppbyggingarskeiði í íslensku samfélagi og sú uppbygging felur í sér fjölmörg tækifæri. Mitt fyrsta verk verður að kynnast nýju samstarfsfólki og setja mig inn í þau verkefni sem fyrir liggja. Ég mun síðan vinna að áframhaldandi þróun á framtíðarsýn og markmiðum Arion banka í góðri samvinnu við stjórn og starfsfólk bankans.“

Monica Caneman, stjórnarformaður Arion banka: „Stjórnin býður Höskuld velkominn til starfa. Höskuldur býr yfir víðtækri þekkingu og reynslu sem mun nýtast við stjórn bankans. Hann hefur með störfum sínum sýnt hæfni til að takast á við umfangsmikil og krefjandi verkefni. Við bindum miklar vonir við samstarfið og hlökkum til að vinna með Höskuldi að uppbyggingu öflugs banka sem hefur hag viðskiptavina að leiðarljósi.“ Höskuldur er viðskiptafræðingur að mennt.

Hann er kvæntur Sigríði Ólafsdóttur og eiga þau þrjú börn.

Fréttatilkynningu Arion banka má einnig nálgast hér.