Glærur frá ráðstefnu um framtíð fasteignalána

04. apríl 2013

Ríflega 200 manns sóttu ráðstefnuna

Ríflega 200 gestir sóttu ráðstefnu Alþýðusamband Íslands, Íbúðalánasjóðs og Samtaka fjármálafyrirtækja um framtíð fasteignalána á Íslandi í morgun. Á ráðstefnunni fóru sérfræðingar yfir stöðu mála á fasteignalánamarkaðnum út frá mismunandi sjónarhornum og vörpuðu ljósi á framtíðarhorfurnar. Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna tóku síðan þátt í pallborðsumræðum um áherslur stjórnmálaflokkanna í þessum málum.

Höskuldur H. Ólafsson, formaður SFF, setti ráðstefnuna og sagði meðal annars eitt brýnasta úrlausnarefni stjórnvalda á næstu misserum vera að tryggja að hér geti þrifist traust og samkeppnishæf fasteignalánastarfsemi sem getur mætt þörfum heimilanna í landinu.Í þeirri vinnu þurfi meðal annars að finna leiðir út úr þeim vanda sem Íbúðalánasjóður glímir við nú um stundir og byggja á þeim grundvelli sem hefur skapast á undanförnum árum og einkennist af samkeppni og fjölbreyttu úrvali lánaforma sem heimilum stendur til boða við fjármögnun fasteignakaupa.

Í kjölfar Höskuldar fór Karsten Beltoft, framkvæmdastjóri Realkreditforeningen, sem eru samtök danskra fasteignaveðlánafyrirtækja, yfir danska fasteignalánakerfið sem margir hér á landi hafa horft til í leit að fyrirmynd. Í þeirra hópi er ASÍ, eins og fram kom í erindi Gylfa Arnbjörnssonar, forseta Alþýðusambandsins, en hann lýsti áhuga sambandsins á að innleiða kerfi í ætt við það danska hér á landi.  Jafnframt sagði Gylfi nauðsynlegt að endurvekja félagslegt húsnæðiskerfi í landinu. Ásgeir Jónsson, lektor við Háskóla Íslands, kynnti niðurstöðu viðamikillar skýrslu sem hann vann ásamt Valdimar Ármann, Sigurði Jóhannessyni auk Brice Benaben og Stefaníu Perucci fyrir SFF um verðtryggingu, vexti og verðbólgu á Íslandi. Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, fór yfir stöðu sjóðsins og framtíðarhorfur hans. Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur SFF, greindi svo stöðu mála, vandamálin sem við er að etja um þessar mundir og hvaða leiðir séu færar til umbóta á íslenska fasteignalánamarkaðnum. Að lokum stjórnaði Auðbjörg Ólafsdóttir pallborðsumræðum með fulltrúum stjórnmálaflokkana. Fundarstjóri var Signý Jóhannesdóttir, varaforseti ASÍ.

Glærur með erindum ræðumanna eru aðgengilegar í gagnasafni á vef SFF.

Glærur með erindi Karsten Beltoft má finna hér

Glærur með erindi Gylfa Arnbjörnssonar má finna hér

Glærur með erindi Ásgeirs Jónssonar má finna hér

Glærur með erindi Sigurðar Erlingssonar má finna hér

Glærur með erindi Yngva Arnar Kristinssonar má finna hér