Gagnleg ráðstefna um FATCA

21. maí 2013

Richard Rosenholtz hjá Skandia fer yfir málin á ráðstefnunni.

Þann 16. maí stóðu SFF fyrir ráðstefnu um bandarísku FATCA-lögin (Foreign Account Tax Compliance Act) og reynslu Svía af innleiðingu þeirra. Fyrirlesarar á ráðstefnunni voru þeir Richard Rosenholtz,  FATCA and Dodd-Frank Regulatory Coordinator hjá Skandia í Svíþjóð og Björn Resare, lögfræðingur hjá Handelsbanken í Svíþjóð. Báðir hafa þeir mikla reynslu af innleiðingu FATCA hjá sænskum fjármálafyrirtækjum og vátryggingafélögum.  Þeir hafa báðir starfað með sænsku bankasamtökunum við innleiðingu FATCA í Svíþjóð og tekið þátt í málstofum um FATCA á alþjóðavettvangi.

Farið var yfir forsögu FATCA regluverksins og tilgang þess sem er að koma í veg fyrir að bandarískir ríkisborgarar og lögaðilar geti komist hjá því að greiða skatt af eignum sem skráðar eru í öðrum ríkjum. Til þess að ná fram þessu markmiði leggur FATCA miklar kröfur á fjármálafyrirtæki sem eiga í viðskiptum við bandaríska einstaklinga og fyrirtæki. Mörg Evrópuríki hafa farið þá leið að gera milliríkjasamning við bandarísk stjórnvöld til þess að einfalda fjármálafyrirtækjum að standast þær kröfur sem FATCA gerir og fóru þeir Rosenholtz og Resare yfir reynslu Svía og annarra Norðurlanda af gerð slíkra samninga í tengslum við FATCA. Þá var farið yfir efni slíkra samninga, og túlkun þeirra. Svíarnir miðluðu reynslu sinni með afar faglegum hætti og munu aðildarfélög SFF án efa geta nýtt sér það veganesti við innleiðingu FATCA hér á landi.