Fundur um verklagsreglur fyrir úrlausn skuldavanda fyrirtækja

03. mars 2010

SFF kynntu nýjar sameiginlegar verklagsreglur fjármálafyrirtækja um úrlausn skuldavanda fyrirtækja á opnum morgunverðarfundi 3. mars á opnum fundi á Hilton Reykjavík Nordica. Hér að neðan má finna dagskrá fundarins ásamt glærum og punktum úr erindum ræðumanna.

Kynning á verklagsreglum

Brynhildur Georgsdóttir, umboðsmaður viðskiptavina Arion banka

Brynhildur fór yfir tilgang og markmið verklagsreglnanna og fór helstu efnisþætti þeirra svosem skilyrði fyrir endurskipulagningu skulda, helstu þættir við mat á fyrirtæki og áframhaldandi þátttöku eigenda og stjórnenda, skilmálar samninga, aðferðarfræði og sjónarmið við fjárhagslega endurskipulagningu og söluferli eigna sem fjármálafyrirtæki taka yfir við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Hún undirstrikaði samkeppnissjónarmið og sjónarmið um jafnræði og gegnsæi. Brynhildur lagði áherslu á að þegar talað væri um gegnsæi þýddi það ekki að allar upplýsingar lægju á borðum heldur að aðferðarfræði, verklag og ákvarðanir væru rekjanlegar, skjalfestar, skýrðar og þekktar og aðgengilegar eftirlitsaðilum þegar kallað væri eftir þeim.

Kynningu Brynhildar má nálgast hér.

Verklagsreglur og siðferðissjónarmið

Stefán Einar Stefánsson, siðfræðingur

Stefán ræddi þær siðferðislegu kröfur og álitaefni sem hafa komið fram í umræðunni við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja og lagði mat á siðferðislegt inntak verklagsreglnanna og siðferðisleg markmið fjármálafyrirtækja. Kom fram í máli hans að það væri ekki siðferðislegt hlutverk fjármálafyrirtækja að setjast í dómarasæti við fjárhagslega endurskipulagningu, það væri hlutverk dómsstóla að ákveða sekt og refsingu brotamanna. Það væri mikilvægt að missa ekki sjónar af siðferðislegri skyldu fjármálafyrirtækja að hámarka endurheimtur sínar sem styrkir getu þeirra til að styðja við íslensk fyrirtæki og hraða endurreisn efnahagslífsins.

Kynningu Stefáns má nálgast hér.

Verklagsreglur og lagaleg álitaefni

Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður

Brynjar rakti lagaleg álitaefni sem geta komið fram við framkvæmd verklagsreglnanna og þann lagalega vanda sem skapast þegar fjármálafyrirtækjum er ætlað að útiloka ákveðna aðila frá því að fá fjárhagslega endurskipulagningu á skuldum fyrirtækja sinna og beita geðþóttaákvörðunum við úrlausn skuldavandamála. Hann sagði það siðferðislega og lagalega rangt að fórna hagsmunum fjármálafyrirtækja (að hámarka endurheimtur), enda væri það skylda stjórnenda þeirra að gæta hagsmuna eigenda sinna (fyrirtækis síns). Við það mat gæti þó þurft að meta þætti eins og orðsporsáhættu, sem stundum gæti réttlætt að verða af hámörkun verðmæta til skemmri tíma ef líklegt væri að það skilað sér til baka til lengri tíma litið. Mikilvægt væri þó að vanda vel íþyngjandi ákvarðanir sem byggðar væru á þeim þætti. Brynjar velti einnig upp hlutverki eftirlistaðila og hversu langt væri hægt að ganga í eftirliti án þess að óeðileg pólitísk afskipti ættu sér stað af rekstri fyrirtækja.

Verklagsreglur og hlutverk eftirlitsnefndar

María Thejll, formaður eftirlitsnefndar

María ræddi hlutverk eftirlitsnefndarinnar þar sem fram kom að nefndinni bæri að kanna að eigin frumkvæði hvort starfað væri í samræmi við ákvæði laganna og eftir verklagsreglum sem settar væru á grundvelli þeirra. Hún fór yfir nauðsyn þess að ákvarðanir við fjárhagslega endurskipulagningu séu ekki byggðar á geðþótta heldur hlutlægri og sanngjarni meðferð á grundvelli jafnræðis og fylgi í hvívetna vönduðum viðskiptaháttum. Fram kom að bankaleynd kæmi ekki í veg fyrir aðgang að gögnum en að nefndin væri bundin algjörum trúnaði gagnvart þeim upplýsingum sem nefndin hefur til skoðunar. Í framkvæmd færi þetta þannig fram að nefndin fengi starfsaðstöðu hjá þeim fjármálafyrirtækjum sem hún væri að skoða og aðgang þar að þeim gögnum sem henni væru nauðsynleg til sinna hlutverki sínu. Hún lagði einnig áherslu á nauðsynlegt gagnsæi þannig að ákvarðanir í samræmi við verklagsreglurnar séu skjalfestar og skráðar.

Kynningu Maríu má nálgast hér.

Ræðumenn geta veitt nánari upplýsingar um inntak og efni kynninga sem komu fram á fundinum.

Sameiginlegu verklagsreglurnar má nálgast hér.