Fjölmenni á fundi um innleiðingu ESB-reglna

13. júní 2014

Ríflega hundrað manns sóttu sameiginlegan fund Fjármálaeftirlitsins og Samtaka fjármálafyrirtækja um innleiðingu evrópsks regluverks á Íslandi sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík í gær.  Markmið fundarins var að varpa ljósi á þá miklu vinnu sem er framundan við innleiðingu þeirra breytinga sem hafa verið gerðar á lagaumhverfi evrópsks fjármálamarkaðar á undanförnum árum og hvaða vandamálum íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir í þeim efnum.

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri FME, setti fundinn og gerði meðal annars grein fyrir þeim breytingum sem hafa verið gerðar á stofnunum sem sinna fjármálaeftirliti á vettvangi Evrópusambandsins og yfirþjóðlegu valdi þeirra. Hún benti á að þær breytingar hefðu gert að verkum að tafir væru á innleiðingu nýrra reglna hér á landi og kallaði sérstaklega eftir því að fjármálafyrirtæki gerðu stjórnvöldum grein fyrir hvaða hagsmunir væru í húfi.

Rúnar Guðmundsson, aðstoðarframkvæmdastjóri eftirlitssvið FME, varpaði ljósi á verklag FME við innleiðingu reglna frá Evrópusambandinu og fjallaði um samstarf eftirlitsins við stjórnarráðið og alþjóðlegar stofnanir í þeim efnum.  Rúnar boðaði að FME myndi leitast við á næstunni að bæta upplýsingagjöf sína um þá vinnu sem fer fram við innleiðingu Evrópureglna og sagði stefnan væri að virkja samvinnu við eftirlitsskylda aðila enn frekar og nýta heimasíðu eftirlitsins betur við upplýsingagjöf.

Í erindi sínu fjallaði Hjálmar S. Brynjólfsson, lögfræðingur hjá FME, um þau verkefni sem ráðast þurfi í  við innleiðingu reglna. Hann benti á að viðbrögð ESB við hinni alþjóðlegu fjármálakreppu hafi verið að umbreyta regluverki á lána-, verðbréfa- og vátryggingamörkuðum. Hann gerði grein fyrir því að á næstu misserum mun Ísland þurfa að innleiða fjölda tilskipana, reglugerða og tæknilegra staðla á sviði fjármálaþjónustu. Vandinn sem íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir í dag er að reglugerðir ESB um stofnun nýrra yfirþjóðlegra stofnana sem hafa eftirlit með fjármálamörkuðum gera að verkum að ekki er hægt að innleiða helstu efnisreglur sökum þess að þær fela í sér framsal á valdi til evrópskra eftirlitsstofnana sem stjórnarskráin heimilar ekki í núverandi mynd.  Í lok erindis síns fór Hjálmar svo yfir hvernig forgangsröðunin ætti að vera ef lausn fyndist á þeim vanda í fyrirsjáanlegri framtíð.

Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, sagði að tafir á innleiðingu þessara efnisreglna séu þegar farnar að hafa neikvæð áhrif á EES-ríkin og þar bíði nú fjöldi gerða á sviði fjármálaþjónustu innleiðingar. Að sögn Tómasar getur óbreytt ástand hér á landi leitt til þess að lánakjör íslenskra fjármálafyrirtækja erlendis versni auk þess sem að það geti almennt séð dregið úr samkeppnishæfni EFTA-ríkjanna. Hann sagði stjórnvöld í EES og EFTA-ríkjunum hafa bent ESB á lausnir á þessum vanda en þeim hafi til þessa verið hafnað.  Tómas sagði stefnu íslenskra stjórnvalda að regluverk fjármálamarkaða hér á landi sé í takti við evrópskar reglur. En  á meðan að ekki næst að leysa þann vanda sem tengist valdframsali til yfirþjóðlegra eftirlitsstofna ESB  verði unnið að því  að festa reglur ESB í sessi hér á landi eins og hægt er.

Steinþór Pálsson, stjórnarformaður SFF, fjallaði um sjónarmið eftirlitsskyldra aðila í erindi sínu. Hann lagði áherslu á að íslensk fjármálafyrirtæki þurfi að  starfa eftir alþjóðlegum reglum til að geta verið gjaldgeng í alþjóðaviðskiptum.  En hann varaði á sama tíma við þeirri tilhneigingu stjórnvalda að bæta séríslenskum ákvæðum við erlendar reglur enda leiði það oftar en ekki til óskilvirkni og kostnaðar: „Það sem gengur annarsstaðar í regluverki er oft ekki nægjanlega gott fyrir okkur og bæta þarf duglega í svo úr verður órökrétt furðuverk.  En fyrir vikið er jafnt og þétt verið að skaða þessa grein, skaða samkeppnisstöðu hennar og valda heimilum og fyrirtækjum meiri kostnaði en ella og draga úr þrótti greinarinnar til að sinna öflugu þjónustuhlutverki.  Þá er erfitt að breyta og færa hlutina í eðlilegt horf þar sem það er túlkað sem eftirlátsemi við fjármálafyrirtæki þó almennt sé vitað hjá þeim sem til þekkja að rétt sé að gera slíkt,“ sagði Steinþór í ræðu sinni.

Í lok fundarins stjórnaði Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur SFF, umræðum frummælenda og fundarmanna. Umræðurnar snérust að mestu leyti um stjórnarskrárvandann og að séríslenskar áherslur við innleiðingu reglna ESB um fjármálamarkaðinn. Þar lýsti Unnur meðal annars þeirri skoðun sinni að það ætti að forðast að bæta séríslenskum ákvæðum við slíkar reglur.


Glærur með erindum þeirra Rúnars og Hjálmars má nálgast hér. Glærur með erindi Tómasar má nálgast hér og ræðu Steinþórs hér.