Fjármálavit og Evrópska peningavikan

10. febrúar 2015

SFF eru eitt þeirra tuttugu aðildarfélaga Evrópsku bankasamtakanna sem standa að Evrópsku peningavikunni sem fram fer í fyrsta sinn vikuna  9. til 13. mars næstkomandi. Með þessari viku vilja Evrópsku bankasamtökin og aðildarfélög þeirra leggja sín lóð á vogarskálarnar til eflingar fjármálafræðslu ungmenna og stuðla að umræðu og vitundarvakningu um mikilvægi þess.

Í tengslum við Evrópsku peningavikuna munu SFF kynna Fjármálavit en það er kennsluefni sem hefur verið þróað af sérfræðingum aðildarfélaga SFF  í samstarfi við kennara og kennaranema. Markmiðið er að Fjármálavit nýtist kennurum í grunnskólum í kennslu um fjármál en það byggir á myndböndum og verkefnum þeim tengdum. Í peningavikunni munu starfsmenn aðildarfélaga SFF heimsækja grunnskóla og kynna Fjármálavit fyrir nemendum og kennurum.

Dagskrá Evrópsku peningavikunnar á Íslandi verður kynnt frekar þegar nær dregur en þá verður opnuð sérstök heimasíða Fjármálavits þar sem kennsluefnið verður að finna ásamt fróðleik um fjármálalæsi. Frekari umfjöllun um Evrópsku peningavikuna má svo finna hér.