Fjármálavit kynnt til sögunnar

09. mars 2015

Samtök fjármálafyrirtækja taka þátt í Evrópsku peningavikunni sem Evrópsku bankasamtökin standa fyrir dagana 9. til 13. mars en markmiðið með henni er að vekja athygli á mikilvægi eflingu fjármálalæsis meðal ungmenna í Evrópu.Þetta er í fyrsta sinn sem Evrópska peningavikan er haldin. Í tilefni hennar hafa SFF útbúið námsefnið Fjármálavit, sem samtökin hafa unnið að síðan í haust.  Til að kynna það eru þrjátíu manns frá 10 aðildarfélögum SFF þess dagana að sækja heim 10. bekkinga í níu skólum, á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Egilsstöðum.  Páll Óskar Hjálmtýsson er verndari Fjármálavits.

SFF hafa unnið að framgangi fjármálafræðslu frá stofnun samtakanna. Á þeirri vegferð hefur komið í ljós að bæði nemendur og kennarar í grunnskólum telja þörf á nýju námsefni í fjármálafræðslu. Þetta varð til þess að SFF réðust í gerð Fjármálavits.

Með Fjármálaviti feta  SFF í fótspor hollensku bankasamtakanna sem hafa verið leiðandi þar í landi í mörg ár í gerð fræðsluefnis um fjármál fyrir skóla.

Nánar má fræðast um Fjármálavit á heimasíðu verkefnisins sem og á Facebook-síðu þess.   Þar má finna skemmtileg fjármálafræðslu myndbönd og upptökur frá heimsóknum Fjármálavits í grunnskólana.