Fjármálaráðgjafar vottaðir í fjórða sinn

22. maí 2015

Fjórða útskrift nemenda úr námi til vottunar fjármálaráðgjafa var haldin við hátíðlega athöfn í Háskólanum í Reykjavík í gær, 21. maí. Fjörtíu nemendur voru útskrifaðir í ár og hafa því 150 starfsmenn viðskiptabanka og sparisjóða lokið náminu og hlotið vottun. Að vottunarnáminu standa Samtök fjármálafyrirtækja, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Háskólinn á Bifröst, viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja.

Markmið vottunarinnar er að samræma þær kröfur sem eru gerðar til fjármálaráðgjafa og tryggja að þeir búi yfir nauðsynlegri þekkingu og færni í starfi. Verkefnið á sér norska fyrirmynd en slíkt vottunarferli hefur verið að ryðja sér til rúms í nágrannalöndunum á undanförnum árum.

Námið til vottunar fjármálaráðgjafa hefur skilað miklum árangri. Sá árangur endurspeglaðist meðal annars í orðum Björns Sveinssonar, útibússtjóra Íslandsbanka á Kirkjusandi, við setningu athafnarinnar en hann sagði námið hafi sannað gildi sitt. Starfsmenn í útibúum banka hafi undanfarna áratugi þurft að aðlaga sig að breyttum veruleika sem meðal annars birtist í þeirri staðreynd að ráðgjöf um fjármál er orðin veigamikill þáttur þjónustunnar. Björn sagði að vottunarnámið hafi skipt sköpum í að tryggja gæði þeirrar ráðgjafar.

Hér má nálgast lista yfir vottaða fjármálaráðgjafa.