Fjármálafyrirtæki greiða 40 milljarða í opinber gjöld

27. nóvember 2014

Aðildarfélög Samtaka fjármálafyrirtækja mun greiða um 40 milljarða til hins opinbera á þessu ári. Þetta kom fram í máli Steinþórs Pálssonar, stjórnarformanns SFF, á SFF-deginum í dag.Samkvæmt mati Samtaka fjármálafyrirtækja þá munu aðildarfélög samtakanna greiða tæplega 40 milljarða króna í opinber gjöld á þessu ári, sem er um 30% hækkun frá síðasta ári. Þetta er tvöfalt hærri upphæð en aðildarfélögin greiddu árið 2007, en þá var bankakerfið átta sinnum stærra en það er í dag.  Af þessari upphæð greiða aðildarfélögin ríflega 16 milljarða króna í ótekjutengd gjöld eða tólf milljörðum króna meira en þau gerðu árið 2007.

Beinir skattar (tekjuskattur, tryggingagjald, aðrir skattar á vinnuafl og ýmsir sérskattar) á alla lögaðila í landinu eru áætlaðir um 167 ma.kr. á árinu 2014. Af þeirri fjárhæð greiða fjármálafyrirtæki um 40 ma.kr, þ.e. tæpan fjórðung.
Steinþór benti á í ræðu sinni að hér væri um mjög þunga skattbyrði að ræða og hún væri mun meiri en þekktist annar staðar í Evrópu. Eitt væri að skattleggja sannanlegan hagnað af starfsemi, en öðru máli gegndi um ótekjutengd gjöld og háa skatta af skuldum eins og fjármálafyrirtækjum er gert að greiða. Steinþór sagði að slík skattlagning myndi á endanum lenda á viðskiptavinum fjármálafyrirtækjanna.

SFF-dagurinn var helgaður spurningunni hvað fjármálageirinn gæti gert til að styrkja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Steinþór sagði að skattaumhverfið væri einn af lykilþáttum samkeppnishæfninnar: „Sé það ekki sanngjarnt og hagfellt grefur það undan samkeppnishæfni efnahagslífsins. Hærri skattar á laun, á skuldir og aukalegur tekjuskattur eru allt nýir skattar á fjármálafyrirtækin  – sem á sama tíma greiða stöðugt hærri upphæðir fyrir eftirlit með starfseminni.“