Fjárfestar leggja MP banka 5,5 milljarða í eigið fé

11. apríl 2011

Samningur um sölu á starfsemi MP banka á Íslandi og í Litháen var samþykktur á hluthafafundi bankans í dag með 99,7% atkvæða. Nýr eigendahópur tekur við allri innlendri starfsemi bankans og starfseminni í Litháen og verður hún rekin undir nafni MP banka. Eignir bankans í Úkraínu hafa verið aðskildar frá rekstrinum og verða áfram í eigu fyrrverandi hluthafa. Nýju eigendurnir leggja MP banka til 5,5 milljarða í nýju hlutafé og er eiginfjárhlutfall bankans vel umfram skilyrði Fjármálaeftirlitsins. Breytt eignarhald á MP banka hefur ekki í  för með sér breytingar fyrir viðskiptavini bankans. Aukin áhersla verður lögð á þjónustu við minni og meðalstór fyrirtæki.

Í nýjum hluthafahópi MP banka eru bæði innlendir og erlendir fagfjárfestar sem hafa trú á bankanum og telja mikla möguleika fyrir frjálsan og óháðan banka. Stærstu hluthafarnir eru Títan fjárfestingafélag (17,5%), Lífeyrissjóður verslunarmanna (9,8%), Joseph C. Lewis, eigandi m.a. Tavistock Group (9,6%), Rowland fjölskyldan sem á m.a. Banque Havilland í Lúxemborg (9,6%), Guðmundur Jónsson (9,1%), TM (5,4%), VÍS (4,5%) og Robert Raich, kanadískur fjárfestir og lögfræðingur (3,6%). Meðal minni hluthafa eru meðal annars Vinnudeilusjóður Samtaka atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins.

„Við erum mjög ánægð með niðurstöðuna og teljum mikil tækifæri felast í því að efla og byggja upp eina sjálfstæða banka landsins,“ segir Skúli Mogensen, forstjóri Títan fjárfestingafélags, sem leiðir nýjan hluthafahóp MP banka. „Við leggjum ríka áherslu á óháða stjórn bankans og öflugt innra eftirlit. Til dæmis er bankanum nú óheimilt með öllu að taka veð í eigin hlutabréfum samkvæmt nýjum samþykktum félagsins.“