Erindin á SFF-deginum

02. desember 2014

Glærur með erindum ræðumanna á SFF-deginum eru nú aðgengilegar á gagnasafni heimasíðunnar.  SFF-dagurinn var haldinn 27. nóvember og var helgaður því hvað fjármálageirinn getur gert til þess að efla samkeppnishæfni íslenska hagkerfisins. Til að svara þeirri spurningu fengu SFF efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins, ráðgjafarfyrirtækið Oliver Wyman og Deutsche Bank til að greina stöðu mála hér á landi í samanburði við nágrannaríkin.Fram kom í greiningu Ásdísar Kristjánsdóttir, forstöðumanns efnahagssviðs SA, að erlend fjármálafyrirtæki hefðu verið að hasla sér völl hér á landi á fyrirtækjamarkaði á undanförnum árum. Erlendir aðildar væru nú með 37% af heildarútlánum til íslenskra fyrirtækja og hefur hlutdeild þeirra vaxið úr því að vera um 30% árið 2012. Þetta er til marks um erfiða samkeppnisstöðu íslenska fjármálageirans. Ásdís benti á að vaxtamunur íslensku bankanna væri hár í alþjóðlegum samanburði en ástæðuna fyrir því væri að finna í séríslenskum aðstæðum en að mati hennar setja þær mark sitt á fleiri svið sem móta samkeppnisfærni fjármálageirans.Carl Raining, sérfræðingar hjá ráðgjafafyrirtækinu Oliver Wyman, sagði í erindi sínu að íslenska bankakerfið væri dýrara en gengur og gerist á  Norðurlöndum.  Í ljósi þessa væri nauðsynlegt að ráðast í uppstokkun á fjármálakerfinu til að efla samkeppnishæfni hagkerfisins. Raining benti á að hægt væri að draga umtalsvert úr kostnaði kerfisins ef að bankarnir þyrftu ekki að viðhalda jafn miklu eigin fé og raun ber vitni og þeim yrði heimilt að eiga samstarf á sviði bakvinnslu. Hann benti á að hægt væri að minnka vaxtamun bankakerfisins um fjórðung ef eiginfjárhlutfall bankanna yrði lækkað um fimm prósentur – úr 24% í 19% - og samkeppnisyfirvöld gæfu grænt ljós á samstarf um bakvinnslu. Þessari lækkun vaxtamunar væri hægt að ná fram án þess að það bitnaði á arðsemi bankanna.Jan Olson, Stephen Westgate og Tommy Paxeus frá Deutsche Bank fjölluðu meðal annars um þau vaxtakjör sem staðið hafa íslenskum bönkum til boða í erlendum skuldabréfaútboðum á undanförnum árum. Fram kom í máli þeirra að eins og staðan er núna geti íslensku bankarnir búist við að greiða um 265 punkta álag ofan á millibankavexti fyrir skuldabréfafjármögnun erlendis. Þeir sögðu að lánshæfismat íslenska ríkisins vægi þungt í mati á vaxtakjörum íslenskra banka, en fáar og litlar skuldabréfaútgáfur bankanna erlendis skýri kjörin einnig.  Tíðari og stærri skuldabréfaútgáfa íslensku bankanna ætti þannig að skapa forsendur fyrir því að vaxtaálag þeirra erlendis lækki tiltölulega hratt.